Morgunverðarfundir

Morgunverðarfundir

Frábært að fá þessar upplýsingar

– segir Maricris Castillo de Luna

Að undanförnu hefur Efling-stéttarfélag haldið nokkra morgunverðarfundi fyrir félagsmenn, en þar á meðal voru haldnir fundir sérstaklega fyrir ungt fólk og tveir fundir voru haldnir með fólki af erlendum uppruna sem starfar hér á landi. Auk þess sem forsvarsmenn félagsins komu upplýsingum á framfæri notuðu þeir tækifærið til að hlusta á viðhorf og skoðanir sem fram komu um þjónustu á skrifstofu og fleira gagnlegt sem kom fram á fundinum. Fréttablaðið ræddi við konu frá Filippseyjum sem starfar sem skólaliði og stuðningsfulltrúi.

Maricris Castillo de Luna er frá Filippseyjum og hóf störfí Mýrarhúsaskóla á Seltjarnar sl. haust. Hún var grunnskólakennari í heimalandi sínu og hana hefur alltaf langað til þess að vinna við kennslu eftir að hún flutti hingað fyrir einu og hálfu ári. Með það í huga hafi hún síðan ákveðið að sækja um vinnu í skólanum.

Maricris er skólaliði fyrir hádegi og stuðningsfulltrúi eftir hádegi og kennir ensku í þriðja bekk tvo daga í viku. Hún segist vona að þessi störf og fjölbreytt samskipti sín við nemendur og kennara eigi eftir að hjálpa sér til þess að ná betra valdi á málinu og auki möguleika á því að hún fái leyfi til þess að vinna við kennslu í fullu starfi í framtíðinni.

Morgunverðarfundurinn var mjög gagnlegur fyrir  þátttakendur af erlendum uppruna. Við fengum nokkuð góða mynd af starfsemi félagsins og réttindum og skyldum okkar þegar við göngum í Eflingu. En upplýsingar um  fjölbreytt fræðslustarf sem félagið stendur fyrir komu mér verulega á óvart. Ég vissi af réttindum okkar til þess að læra íslensu vegna þess að ég fór á námskeið  hjá  Námsflokkum Reykjavíkur og Mími – símenntun. En ég hafði ekki hugmynd um starfstengda námið sem  boðið er uppá í nokkrum starfsgreinum og gefur fólki möguleika á hærri launum, segir hún.

Möguleiki á að dvelja í orlofsíbúð í Kaupmannahöfn

Eins fannst mér kynningin á orlofshúsunum og möguleikum að dvelja í orlofsíbúð í Kaupmannahöfn og ferðatilboð til Spánar mjög spennandi.

Einnig hafi umfjöllunin um sjúkrasjóðinn verið fróðleg og þar hafi m.a. komið fram að sjóðurinn taki þátt í gleraugnakaupum og kostnaði við krabbameinsskoðun og ýmislegt fleira sem snertir heilsu fólks og það var frábært að fá þær upplýsingar.

Það eru fjölmargir útlendingar í Eflingu og mér finnst gott að vita til þess að þjónusta við félagsmenn er jafn góð og fram kom á fundinum. En hvað mig sjálfa varðar þá á ég íslenskan eiginmann og hann hefur verið mjög dulegur að upplýsa mig um flesta hluti og hjálpa mér að hafa góð samskipti við þá aðila sem ég hef þurft að leita til, segir hún.

Hún fékk greinargóð svör við spurningum sem hún lagði fyrir starfsmenn. Þegar fundinum lauk hafði ég mjög góða tilfinningu fyrir því að ég væri félagsmaður í Eflingu með öllum þeim réttindum og skyldum sem því fylgja og mér líður bara vel með það, sagði Maricris að lokum.