Lauk BA námi í íslensku

12. 09, 2006


Ekki láta hugfallast þó tungumálið sé þröskuldur

Lauk BA námi í íslensku

Ég tók stúdentspróf á ensku í MH á sínum tíma og ákvað að reyna við inntökupróf í læknisfræði við Háskóla Íslands haustið 2003. Eftir þrjár tilraunir sannfærðist ég um að kunnátta mín í málinu dugði ekki til þess að ég næði prófinu. Ég vildi ekki láta þar við sitja og ákvað því að fara í íslenskunám við Háskólann og undirbúa mig betur undir frekara nám, segir Ósk Uzondu Anuforo. Hún er starfsmaður í heimaþjónustu og frásögn hennar hér er ágætt dæmi um að fólk á ekki að láta hugfallast þó íslenskan sé erfiður þröskuldur í námi hér á landi.

Ósk náði takmarki sínu og lauk BA-námi í íslensku sl. vor og byrjar í líffræði í haust í HÍ. Samhliða náminu hefur hún unnið við heimaþjónustu hjá Félagsþjónustunni við Dalbraut og samskipti við fólkið sem hún vann fyrir segir hún hafi hjálpað sér ótrúlega mikið við íslenskunámið.

Mér gekk líka mjög vel í náminu, segir hún. Ég var orðin þreytt á að lesa fyrir öll inntökuprófin og þessi ákvörðun hafði mjög góð áhrif á mig. En kannski reyni ég aftur við læknisfræðina þegar ég útskrifast úr líffræðinni. Hver veit?

Lokaritgerðin hennar í BA náminu fjallar um álfa og huldufólk. Ástæðan er sú að hún hefur lengi haft áhuga á sögum af álfum og huldufólki og notaði því tækifærið og las m.a. bækur um þetta efni eftir Árna Magnússon sem Árnastofnun er kennd við. Hún lét þess líka getið í ritgerðinni að íslenskir álfar séu fyrirmyndir að persónum í sögunni Lords of the Ring, sem var kvikmynduð fyrir nokkrum árum og flestir kannast við. Þegar Ósk er spurð hvort hún trúi á álfa og huldufólk svarar hún því neitandi. En mér finnst hugsunin um það mjög góð, sagði Ósk að lokum.