Starfsmenn hjá Borginni

11. 09, 2006

Starfsmenn hjá Borginni skella sér í nám!

Mikið hefur verið spurt um nám fyrir starfsmenn unhverfissviðs og framkvæmdasviðs hjá Reykjavíkurborg. Síðastliðinn vetur var fyrsta námskeiðið fyrir starfsmenn umhverfissviðs og framkvæmdasviðs haldið.  Mikil ánægja var með námskeiðið og þó einstaka þátttakanda hafi í upphafi þótt tíma sínum betur varið í annað þá var það mjög ánægður hópur sem lauk náminu síðasta vor.  Í umsögnum um námskeiðið voru allir þátttakendur sammála um að þeir hefðu haft bæði gagn og gaman af náminu.  Boðið var upp á hæfilega blöndu af hagnýtum verkefnum sem tengjast daglegum störfum og almennum fróðleik um til dæmis ábyrgð á eigin heilsu og því að vinna saman í hóp.

Nú í haust er ætlunin að fara aftur af stað með þetta nám og vill Efling hvetja starfsmenn umhverfissviðs og framkvæmdasviðs borgarinnar til að taka þátt og skrá sig í námið.  Hægt er að fá nánari upplýsingar og skrá sig hjá næsta yfirmanni eða mannauðsdeildum þar sem það á við.

Eftir áramót er síðan ætlunin að halda áfram og bjóða upp á framhald fyrir þá sem lokið hafa fyrsta námskeiðinu en það mun verða kynnt nánar þegar nær dregur.

Mjög margir hafa á undanförnum mánuðum spurt um nám fyrir umhverfissviðið og framkvæmdasviðið og er þetta námstækifæri því kærkomið fyrir starfmennina.

Undir sviðin heyra garðyrkja, sorphirða, hverfabækistöðvar, dráttavéladeild, umferðardeild, holræsin og fleiri svið.

Fræðslusjóður Reykjavíkurborgar og Eflingar-stéttarfélags er vel í stakk búinn til að vera bakhjarl þessara námskeiða og mun sjóðurinn styrkja námskeiðahaldið.

Glæsilegt. Um að gera að bretta upp ermarnar og læra meira!!!!