Það er gott að eiga góða að

12. 09, 2006


Það er gott að eiga góða að

Stóraukin réttindi sjóðfélaga frá 1. júní 2006!

Hagnýtar upplýsingar til sjóðfélaga um réttindi þeirra til greiðslna úr Sjúkrasjóði.

 

Hverjir eiga rétt – og hverjir eru sjóðfélagar?

Sjóðfélagar eru þeir sem launagreiðendur greiða af umsamið iðgjald af launum til sjóðsins. Umsamið iðgjald er mismunandi eftir launagreiðendum. Á almennum markaði greiða atvinnurekendur 1% til sjóðsins. Opinber fyrirtæki þ.e. ríki, sveitarfélög, sjálfseignastofnanir svo sem hjúkrunar- og dvalarheimili og einkareknir leikskólar greiða 0,55% til sjóðsins og eiga starfsmenn þeirra í staðinn mun lengri veikindarétt en á almennum markaði en þeir eiga aftur á móti skemmri rétt til greiðslna sjúkrabóta og dagpeninga hjá sjóðnum.

 

Hvenær fer greiðsla fram?

Dagpeningar og aðrir styrkir sjóðsins eru greiddir einu sinni í mánuði, um mánaðamót. Skila þarf gögnum til sjóðsins í síðasta lagi 20. hvers mánaðar til að tryggja greiðslu.

 

Gögn sem þurfa að fylgja umsókn um dagpeninga

 • Ljósrit af nýjasta launaseðli. 
 • Starfsvottorð næstliðna 12 mánuði þar sem fram kemur starfstími og starfshlutfall og hvaða dag viðkomandi varð launalaus vegna veikinda/slyss.
 • Læknisvottorð.
 • Skattkort.

 

Tekjutengdir dagpeningar

Greitt er 80% af launum miðað við iðgjaldaskil næstliðna 6 mánuði áður en sjóðfélagi varð launalaus vegna veikinda/slyss. Þó ekki af hærri upphæð en sem nemur 256.250.- til jafnaðar á mánuði. Ef samfelld aðild er fimm ár eða lengri getur tekjutenging að meðtöldum dagpeningum frá Tryggingastofnun numið allt að 100% tekjutapi. Samanlagðar bætur frá Sjúkrasjóði og Tryggingastofnun geta þó aldrei orðið hærri á mánuði en sem nemur meðaltali tekjumissis umsækjanda. Dagpeningar reiknast miðað við iðgjaldaskil til sjóðsins og eru greiddar í allt að sex mánuði vegna sjóðfélaga á almennum markaði en í þrjá mánuði hjá launagreiðanda sem greiðir minna en 1% iðgjald til sjóðsins. Dagpeningar greiðast að hámarki þrjá mánuði afturvirkt frá því að umsókn barst sjóðnum. 

 • Til að viðhalda réttindum í öðrum sjóðum félagsins er greitt 1% félagsgjald af dagpeningum.

 

Dagpeningar – skilyrði

Samkvæmt reglugerð Sjúkrasjóðs öðlast þeir rétt til greiðslu dagpeninga sem greitt er af til sjóðsins í a.m.k. þrjá samfellda mánuði fyrir veikindi/slys. Flutningur réttinda frá öðru verkalýðsfélagi innan Alþýðusambands Íslands getur þó aðeins átt sér stað ef greitt hefur verið til sjóðsins af viðkomandi í a.m.k. einn mánuð og til annars sjúkrasjóðs hjá félagi innan ASÍ í a.m.k. tvo næstu mánuði þar á undan. Deilitalan er alltaf miðuð við sex mánuði þótt greitt hafi verið skemur, nema ef samfelld aðild hjá sjúkrasjóði Eflingar og sjúkrasjóði annars félags innan ASÍ nær samfelldum sex mánuðum, en þá er deilt með mánaðafjölda sem greitt hefur verið til Sjúkrasjóðs Eflingar.

 

Undanþágur og heimildir

Undanþágur, svo sem vegna atvinnulausra eða félagsmanna í fæðingarorlofi, sem greiða félagsgjöld af atvinnuleysisbótum eða fæðingarorlofi sínu eru veittar í allt að þrjá mánuði, hafi þeir verið sjóðfélagar áður en þeir urðu atvinnulausir eða fóru í fæðingarorlof, þar sem ekki er greitt iðgjald til sjóðsins af þessum greiðslum. Aðrar heimildir er sömuleiðis veittar í allt að þrjá mánuði.

                       

Frá hvaða tíma greiðast dagpeningar?

Réttur stofnast frá og með þeim tíma er samningsbundinni eða lögboðinni kaupgreiðslu lýkur, þ.e. ef sjóðfélagi verður launalaus vegna veikinda/slyss í að minnsta kosti fimm samfellda daga eða meira.

 

Hvenær eru dagpeningar ekki greiddir?

Dagpeningar eru einungis greiddir tímabundið til þeirra sem verða launalausir vegna veikinda/slyss og eiga ekki rétt á öðrum greiðslum en sjúkradagpeningum sjúkrasjóðs og dagpeningum frá Tryggingastofnun ríkisins. Ekki er greitt þegar/ef sjóðfélagi öðlast rétt til greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins eða lífeyrissjóði svo sem örorkubætur, endurhæfingarlífeyrir, ellilífeyrir/eftirlaun.Þá er ekki greitt vegna bótaskyldra slysa svo sem umferðar- eða vinnuslysa en þá ber tryggingafélagi að greiða þolanda tímabundið atvinnutjón. Réttur til sjúkrabóta og dagpeninga fyrnist sé þeirra ekki vitjað innan 12 mánaða frá því að réttur til greiðslu þeirra skapaðist.

 

Dagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins?

Jafnframt sjúkradagpeningum frá Eflingu getur þú átt rétt á sjúkra- eða slysadagpeningum frá Tryggingastofnun ríkisins.   

 

Hve lengi eru sjúkrabætur og dag­pen­ingar greiddir?

 • Ef samfelld sjóðfélagsaðild er sex mánuðir eða lengri er greitt í allt að 180 daga.
 • Ef samfelld sjóðfélagsaðild er fimm mánuður er greitt í allt að 150 daga.
 • Ef samfelld sjóðfélagsaðild er fjórir mánuðir er greitt í allt að 120 daga.
 • Ef samfelld sjóðfélagsaðild er þrír mánuðir er greitt í allt að 90 daga.
 • Ef  greitt hefur verið af sjóðfélaga til Sjúkrasjóðs Eflingar í a.m.k. einn mánuð og í a.m.k. tvo næstu þar á undan til annars stéttarfélags innan ASÍ er greitt í allt að 90 daga.
 • Sjóðfélagi í starfi hjá opinberu fyrirtæki sem greiðir minna en 1% iðgjald til sjóðsins. Greitt er í allt að 90 daga. Ekki er greitt ef veikindaréttur nær einu ári hjá vinnuveitanda (360 dögum).
 • Vegna veikinda barna. Samfelld sjóðfélagsaðild a.m.k. þrír mánuðir eða lengri. Greitt í allt að 180 daga.
 • Vegna veikinda maka. Greitt í allt að 90 daga, enda samfelld aðild að sjóðnum tólf mánuðir eða lengri.
 • Vegna áfengis- eða vímuefnameðferðar er greitt í allt að 45 daga (6 vikur).
 • Undanþágur vegna atvinnulausra félagsmanna og félagsmanna í fæðingarorlofi sem greiða félagsgjöld til félagsins af atvinnuleysisbótum eða fæðingarorlofi, að því gefnu að þeir hafi verið sjóðfélagar áður en þeir urðu atvinnulausir eða fóru í fæðingarorlof og aðrar heimildir. Greitt í allt að 90 daga.
 • Vegna veikinda móður á meðgöngu er greitt út sjöunda mánuð meðgöngu, enda eiga konur rétt til allt að tveggja mánaða lengingar fæðingarorlofs vegna meiriháttar veikinda á meðgöngu sinni án þess að skerða rétt sinn til fæðingarorlofs eftir fæðingu skv. ákvæðum laga nr. 95/2000.