Efling á Íslandsbryggju!

12. 12, 2006

Útrásin heldur áfram með þriðju íbúðinni í Köben

Efling á Íslandsbryggju!

 
Eftir að Efling tók ákvörðun um að leigja íbúð í Kaupmannahöfn á miðju ári 2005 má svo sannarlega segja að hlutirnir hafi þróast hratt. Ótrúlega jákvæði viðbrögð voru strax við þessu framtaki, svo mikil að ljóst var að ein íbúð dygði engan veginn. Fljótlega var bætt við annarri og enn jókst eftir­spurnin og þrýstingurinn á að halda þessari útrás áfram. Það leiddi svo til þess að leigð var þriðja íbúðin nú á haustdögum.
Markmiðið var frá upphafi að vera í göngufæri við miðbæinn og aðeins kæmi til greina að taka vel búnar og góðar íbúðir á leigu. Ekki er ofsögum sagt að heppnin hafi verið með félagsmönnum Eflingar. Allar eru íbúðirnar stórglæsilegar og frábærlega staðsettar.
Þriðja og nýjasta íbúðin okkar í Kaupmannahöfn er þar engin undantekning. Hún er í nýju húsi með frábærum garði og umhverfi. Ekki spillir fyrir að hún er á Íslandsbryggju en þar lögðu kaupskipin sem sigldu milli Danmerkur og Íslands upp áður fyrr.
Sérkennilegt og skemmtilegt er að ganga um götur þarna því þær bera nær allar íslensk nöfn. Nefna má Sturlugötu, Snorragötu, Njálsgötu og Reykjavíkurgötu svo einhverjar séu nefndar. Aðeins er um 15 mínútna gangur að Ráðhústorginu, Tívolíi og Strikinu.
 
Í íbúðinni geta dvalið með góðu móti allt að 7 manns og er hún búin jafnmiklum þægindum  og hinar tvær íbúðirnar.
Leigubílar, lestarstöð og matvöruverslanir eru í stuttu göngufæri auk þess sem komin er  göngubrú yfir í Fisketorvet, nýja verslunarmiðstöð sem blasir við frá Íslandsbryggju hinu megin síkisins og margir munu væntanlega heimsækja.
Það er von félagsins að sem flestum auðnist að njóta dvalar í íbúðunum í Kaupmannahöfn og brýnum jafnframt fyrir gestum þar að ganga vel um og taka tillit til annarra íbúa.
Þó við séum í fríi eru nágrannarnir það ekki!