Skemmtilegt í Skarði!

12. 12, 2006

Skemmtilegt í Skarði!

Kjörið tækifæri fyrir merkis­atburði í fjölskyldunni

– segir Sveinn Ingvason

 
Umfangsmiklar endurbætur  hafa farið fram á íbúðarhúsinu í Svignaskarði undanfarin misseri. Að sögn Sveins Ingvasonar, sviðsstjóra orlofs­sviðs Eflingar er þeim lokið og húsið komið í útleigu. Skarð var hús ábúandans á landinu  meðan búskapur var þar stundaður. Húsið stendur sunnan þjóðvegarins gegnt orlofsbyggðinni í Svignaskarði og blasir við frá veginum. Hér er kjörið tækifæri fyrir fjölskyldufólk að nýta þetta hús fyrir ýmsa merkisviðburði í fjölskyldunni, segir hann.

Ákveðið hefur verið að gefa húsinu nafnið Skarð en það hefur jafnan gengið undir því nafni manna á meðal í sveitinni. Það hefur semsagt verið tekið í notkun nú en húsið og allt innanstokks er með allra glæsilegasta móti og mjög rúmgott.
Gistirými er þar fyrir 10-12 manns í fimm svefnherbergjum og er það vel búið öllum þægindum.
Húsið er hugsað sem kjörið tækifæri fyrir félagsmenn sem vilja halda lítil fjölskyldumót, stórafmæli sín eða jafnvel lítil og skemmtileg brúðkaup.
Munu þeir félagsmenn ganga fyrir með leigu á húsinu ef um slík tilefni er að ræða.
Útsýni frá húsinu er stórkostlegt og varla hægt að ímynda sér neitt yndis­legra á köldu vetrarkvöldi en að sitja í heitum potti eftir góða grillsteik og horfa á stjörnur og norðurljós!
Þeir sem áhuga hafa á að panta húsið þurfa að fylla út sérstakt eyðublað sem hægt er að nálgast á skrifstofu Eflingar, Sætúni 1.