Er gott að fá laun í evrum?

24. 01, 2007

Er gott að fá laun í evrum?

– eftir Ásgeir Jónsson, hagfræðing

Háir vextir og óstöðugleiki á gjaldeyrismarkaði hafa skapað gríðarlegar óvinsældir fyrir íslensku krónuna á síðustu misserum. Það er því ef til vill ekki að undra að mörg fyrirtæki hugað nú að því hvernig þau færa sem mest af kostnaði sínum yfir í erlendar myntir og þannig flúið krónuna. Ein leið sem stungið hefur verið upp á er að laun séu greidd í evrum. Hingað til hefur þessi umræða nær eingöngu verið frá sjónarhóli atvinnurekenda. En hvernig horfir málið við almennu launafólki?
Svarið er þó ekki einhlítt þar launagreiðslur í evrum geta bæði unnið tjón og bót fyrir launþega. Ef laun eru alfarið greidd út í evrum skapar það óstöðugleika fyrir lífsafkomu heimilanna þar sem kaupmáttur þeirra veltur í hverjum mánuði á hræringum á gjaldeyrismarkaði. Það getur vart talist eftirsóknarverð fyrir launþega. Hins vegar getur falist töluverður ábati í því að fá hluta af launum sínum í evrum þar sem það gefur færi á því að lækka vaxtakostnað sinn með því að taka erlend lán. Ástæðan er einfaldlega sú að erlendar tekjur að einhverju marki gefa færi á því stofna til erlends kostnaðar – gengisáhættan fellur út þegar gjöldin og tekjurnar koma saman. Þetta skiptir töluverðu máli því erlendir vextir hafa verið mun lægri en þeir íslensku um langt skeið og sá munur mun án efa haldast svo lengi sem krónan er við lýði.

Erlendar tekjur gefa færi á erlendum vöxtum

Helstu ókosturinn við að taka erlent lán er sú áhætta sem felst í því að krónan getur hækkað eða lækkað snögglega og þannig þyngt eða létt greiðslubyrði heimilanna. Það er þessi áhætta sem kemur í veg fyrir að fólk hagnýti sér lága vexti ytra með töku erlendra lána. Hins vegar ef hluti launa er greiddur út í erlendri mynt fæst vörn gegn þeirri gengisáhættu sem fylgir erlendum lánum. Með öðrum orðum ef gengi krónunnar lækkar þá hækkar vaxtagreiðslur af erlendum lánum (þar sem höfuðstóll lánanna hækkar í íslenskri mynt) en það kemur ekki sök því að sama tíma hækkar sá hluti launanna sem er greiddur út í evrum (þar sem hver evra kaupir fleiri krónur). Hægt er að orða þetta sem svo að um leið og launþegar fá laun í erlendri mynt geti þeir farið að dæmi fyrirtækja með erlendar tekjur og lækkað vaxtakostnað sem með töku erlendra lána. Hér er eftir töluverðu að slægjast en nú um stundir er nafnvextir á evrusvæðinu 3,5% ef miðað er við stýrivexti Evrubankans sem er hægt er að bera saman við 14,25% stýrivexti íslenska seðlabankans.

Takmörkuð evruvæðing er þó best

Ef launin eru alfarið greidd í evrum felur það í raun sér að fyrirtækin eru að varpa sinni gengisáhættu í rekstri yfir á sína eigin starfsmenn. Það er í sjálfu sér ekki með öllu óþekkt hérlendis þar sem t.d. sjómenn eru alfarið ráðnir upp á hlut og eru þannig háðir gengissveiflum þar sem aflaverðmæti veltur á gengi krónunnar. Slíkt fyrirkomulag getur án efa hentað sumum starfsstéttum hjá ákveðnum fyrirtækjum sem eiga í mjög harðri erlendri samkeppni. En heilt yfir tekið geta launþegar vart tekið því fagnandi að fá launin í erlendum gjaldmiðli þar sem kaupmáttur þeirra hér á Íslandi tekur að rokka með sveiflum á gjaldeyrismarkaði. Raunar væri fyrirtækjunum líka nær að bregðast við áhættunni með virkri fjárstýringunni, gengisafleiðum og svo framvegis í stað þess að velta henni yfir á einstaklinga.  Það væri til að mynda mun hagkvæmara frá þjóðhagslegu sjónarmiði einn sterkur aðili verji sig gegn gengisáhættu í einu stóru lagi fremur en það sé gert í mörgum smáum skömmtum. Þannig er ekki hægt að mæla með því sem almennri reglu að laun sé greidd alfarið út í evrum svo lengi all íslenska hagkerfið er ekki orðið evruvædd og t.d. verð í búðum sé sjálfkrafa skráð í evrum.

Er krónan blóraböggull?

Mikið af þeirri gagnrýni sem dunið hefur á krónunni er réttmæt en margt er þó ofsagt. Það er rétt að verulegir erfiðleikar fylgja því að halda úti einu smæsta myntsvæði í heimi þegar fjármagnsviðskiptin eru að verða æ alþjóðlegri og umfangsmeiri. Það er alveg ljóst að krónan er viðskiptahindrun sem skapar töluverðan kostnað fyrir heimili og fyrirtæki landsins. Hins vegar er rangt að kenna krónunni einni verðbólgu og hávexti á síðustu tveim árum. Að því leyti til endurvarpar íslenska krónan aðeins aðstæðum í efnahagslífinu sjálfu og háir vextir eru aðeins viðbrögð við þenslu hérlendis. Þau vandamál verða ekki leyst með upptöku evru.