Erlendir starfsmenn hjá LHS á íslenskunámskeiði

13. 03, 2007

Gríðarlegur áhugi á menntun

Aðsókn að námi aldrei verið meiri

Í byrjun janúar var tekið á móti umsóknum í fjölda námskeiða á vegum Eflingar-stéttarfélags. Mörg námskeiðanna fylltust hratt og var t.d. fullt á jarðlagnatæknanámskeiðið í byrjun janúar. Námskeiðið er fullsetið.  Í öðrum greinum má nefna að leikskólanámið eða svokölluð leikskólabrú fylltist og hófst það nám um miðjan janúar. Á sama hátt fylltist félagsliðabrúin og hóf einn hópur námið um miðjan janúar.
Í fyrsta sinn var nú boðið upp á félagsliðabrú fyrir starfsmenn af erlendum uppruna og er þar einn hópur kominn af stað í því námi. Fagnámskeið II í umönnun fylltist og varð að bæta við tveim hópum. Starfslokanámskeið er fullbókað og er biðlisti.
Mörg önnur námskeið eru í undirbúningi og verða haldin á vorönn 2007. Gríðarlegur áhugi félagsmanna í Eflingu-stéttarfélagi fyrir frekari menntun er að endurspeglast í þessari þátttöku og því mikið verk að vinna á næstunni við fleiri námsbrautir.


Erlendir starfsmenn hjá LHS á íslenskunámskeiði

Skemmilegt að kynnast þátttakendum

-segir Wojciek Harbuz

Hópur erlendra starfsmanna á Landspítala háskólasjúkrahúsi lauk 60 stunda námi í íslensku þann 28. janúar. Þau voru sammála um að námið hefði gengið mjög vel og fulltrúar Eflingar sem var boðið í útskriftina voru sammála um að hópurinn hefði náð ótrúlega góðum árangri á þessum stutta tíma. Landspítalinn mun síðan bjóða þessum starfsmönnum uppá framhaldsnámskeið þannig að þau geti haldið áfram að bæta sig í íslenskunni.
Wojciek Harbuz kom frá Póllandi í maí á síðasta ári og fór að vinna í byggingarvinnu. En  hann ákvað fljótlega að  breyta til og fékk vinnu við umönnun á Landakotsspítala. Wojciek segist hafa lært talsvert í íslensku á námskeiðinu og vonist til að fá tækifæri til þess að læra meira á næstunni. Kennarinn hafi verið frábær og það hafi verið bæði fróðlegt og skemmtilegt að kynnast þátttakendunum.
„Þátttakendur eru frá mörgum löndum og samskipti okkar urðu meiri eftir því sem leið á námskeiðið. Ein aðferðin sem kennarinn notaði við kennsluna var að banna okkur að tala annað tungumál en íslensku í tímunum og mér fannst það bera mjög góðan árangur“, segir hann.
Wojciek á eiginkonu og son á fjórða ári í Póllandi og er að leita að íbúð svo að þau geti dvalið hjá honum.
Ég vona að þeim líki dvölin vel vegna þess að ég gæti vel hugsað mér að búa hér áfram, sagði Wojciek að lokum.