Aðalfundur Eflingar

27. 04, 2007

Aðalfundur Eflingar

Nýr varaformaður

· Lækkun félagsgjalda
· Aukinn réttur í sjúkrasjóði

Nýr varaformaður Eflingar-stéttarfélags tók við á aðalfundi félagsins þegar Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir lét af störfum en við tók Sigurrós Kristinsdóttir. Félagsgjöld lækka næstu áramótum  um 30% og verða þá 0,7% af launum í stað 1% áður.  Það er fjárhagslega góð afkoma félagsins undanfarið ár sem liggur að baki þessari ákvörðun og  sannast þarna enn hagkvæmni þess að vera í jafn stóru og öflugu félagi og Efling er.
Samþykktar voru breytingar í sjúkrasjóði sem allar hafa í för með sér aukin réttindi félagsmanna í sjóðnum.  Þá voru hækkaðir allmargir styrkir til félagsmanna.

Styrkur til Sjóminjasafnsins

Veglegur styrkur var veittur til Sjóminjasafns Reykjavíkur og veitti Sigrún Magnúsdóttir forstöðumaður safnsins honum viðtöku.  Styrkurinn er veittur til að safnið geti útbúið sýningu á störfum hafnarverkamanna fyrr á tímum.

Breytingar á stjórn Eflingar

Mikil tíðindi urðu á fundinum varðandi stjórn félagsins.  Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir og Hjördís Baldursdóttir hurfu úr stjórn eftir margra ára setu þar. Sigurður Bessason, formaður Eflingar, þakkaði þeim gott samstarf og fyrir að helga sig baráttu launafólks meginhluta starfsæfi sinnar.  Þær Þórunn og Hjördís eru þó ekki alveg farnar frá Eflingu því þær eru báðar starfsmenn á skrifstofu félagsins. 
Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir hefur verið hefur 1. varaformaður félagsins frá upphafi og hefur verið mikill drifkraftur í starfsemi félagsins alla tíð.  Hún hefur einkum helgað sig starfsmenntamálum og er óhætt að fullyrða að þar hefur hún lyft grettistaki.  Undir hennar forystu hafa orðið til ótal margar nýjar námsleiðir sem hafa opnað þúsundum leið til að fara aftur í nám og bæta starfssklyrði sín og lífskjör.
Sigurrós Kristinsdóttir og Jódís Sigurðardóttir koma nýjar inn í stjórn Eflingar.  Jódís er meðstjórnandi en Sigurrós tekur við af Þórunni Sveinbjörnsdóttur sem 1. varaformaður félagsins.  Sigurrós verður jafnframt starfsmaður á skrifstofunni.