Framtíð í nýju landi

17. 09, 2007


Anh-Dao Tran verkefnastjóri og Fjóla Jónsdóttir hjá Eflingu

Framtíð í nýju landi

Fleiri ástæður en íslenska sem skapa erfiðleika

– segir Anh-Dao Tran

Þann 1. desember nk. lýkur verkefninu Framtíð í nýju landi. Verkefnið hefur það að markmiði að efla ungmenni af erlendum uppruna við að afla sér menntunar og skipuleggja líf sitt. Alls hafa rúmlega fimmtíu víetnömsk ungmenni á aldrinum 15 til 25 ára tekið þátt í því. Anh-Dao Tran, verkefnastjóri segir að í úttekt á verkefninu sem var gerð fyrir skömmu hafi verið rætt við 26 aðila sem hafa tekið þátt í því og niðurstaða sé mjög jákvæð. Það ýtir enn frekar undir þá skoðun mína að ungmenni af erlendum uppruna þurfa að hafa aðgengi að stuðningi, ráðgjöf auk þess að hafa málsvara fyrir sig, segir Anh-Dao.
Aðspurð segir Anh-Dao að upphaflega hafi sex aðilar staðið að verkefninu og styrki það fjárhagslega.   Þegar verkefnið hafði staðið yfir í hátt á annað ár kom Efling til samstarfs við okkur og ásamt því að styrkja verkefnið fjárhagslega hefur félagið m.a. aðstoðað okkur við að koma krökkum í starfsþjálfun, segir hún    
Tólf ungmenni eru nú í framhaldsskólum á vegum verkefnisins í starfsnámi og námi til stúdentsprófs.
Helstu erfiðleikarnir sem ungmennin  þurfa að glíma við er að þau hafa misgóðan bakgrunn í menntun frá heimalandi sínu, viðhorf heimilanna til menntunnar er mismunandi og ólík uppbygging milli tungumála.

Iðnskólinn sýnir mikinn stuðning

Anh-Dao segir að Iðnskólinn hafi sýnt nemendum af erlendum uppruna mikinn skilning. Í staðinn fyrir að ljúka prófum í kjarnagreinunum íslensku, ensku, dönsku og stærfræði, áður en þau fara í starfsnám, fái þau að taka eitt eða tvö bókleg fög með verklegu námi.  Þessi tilhögun hvetur þau áfram þar sem íslenskan háir þeim ekki eins mikið í verklega hlutanum. 

Íslenskunám

Verkefnið vinnur að því að móta tillögur að 2 ára námi á íslenskubraut fyrir ungt fólk eftir grunnskólaaldur.  Markmiðið er að ná góðum tökum á íslensku til þess að stíga næstu skref fyrir góða framtíð.   Mörg ungmenni fara kannski aðeins í 9 og 10 bekk í grunnskóla og ná því ekki tökum á íslensku á svo stuttum tíma.
Til að byrja með ætlum við að bjóða kennara frá Bandaríkjunum að koma hingað í haust til að kenna nýja kennsluaðferð við tungumálakennslu.

Málþing ungmenna af erlendum uppruna

Vegna forgöngu Framtíðar í nýju landi vinnur hópur ungs fólks af erlendum uppruna að undirbúningi málþings um stöðu þeirra og framtíð í íslensku samfélagi. Tilgangur málþingsins er að láta rödd þeirra heyrast til þess að auka skilning á milli þeirra og annara landsmanna. Hugmyndin er m.a. að fá ungmenni af erlendu bergi brotnu í skólum og á vinnumarkaði til þess að taka þátt og unga fólkið mun sjá um  fundarstjórn. Málþingið verður í hátíðarsal Menntaskólans við Hamrahlíð þann 24. september og hefst að morgni kl.08.30 og stendur til klukkan 12.30. Ég er mjög spennt að sjá hvernig til tekst, sagði Anh-Dao að lokum.


Fjóla Jónsdóttir hjá Eflingu

Verkefnið opnaði augu okkar

Fjóla Jónsdóttir  sér um samskipti Eflingar við Framtíð í nýju landi og situr í stjórn verkefnisins. Hún segir að aðkoma hennar að verkefninu hafi opnað augu sín fyrir  stöðu ungs fólks af erlendum uppruna í skólum og á vinnumarkaði.
Hún sagðist hafa álitið sjálfsagt að skólakerfið ætti að sjá börnum af erlendum uppruna fyrir íslenskukennslu og öllum þeim stuðningi og aðstoð sem þau þyrftu á að halda. En það er augljóst að þannig er ekki haldið á málum, enn sem komið er.
Ég myndi segja að þetta verkefni hafi opnað augu okkar fyrir því að við þurfum að fylgjast vel með ungu fólki á vinnumarkaðnum og þá kannski sérstaklega af erlendum uppruna.   Við þurfum að finna fleiri leiðir til þess að skapa tækifæri fyrir þau í námi og starfi í samvinnu við atvinnurekendur og skólayfirvöld, segir Fjóla.