Áherslan á kaupmátt og hækkun lægstu launa

30. 10, 2007

Flóinn og Boðinn vilja samning til tveggja ára

Áherslan á kaupmátt og hækkun lægstu launa

Megináherslan verður á hækkun lægstu launa og kaupmáttaraukningu í komandi kjarasamningum, segir Sigurður Bessason, formaður samninganefndar Flóafélaganna og Boðans eftir fund með Samtökum atvinnulífsins í dag þar sem helstu stefnumið félaganna voru kynnt. Í gærkvöldi samþykkti aðalsamninganefnd félaganna almenna stefnumörkun þar sem gert er ráð fyrir að stjórnvöld tryggi stöðugleika og lækkandi verðbólgu til að launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti. Flóafélögin vilja semja til tveggja ára með traustum tryggingarákvæðum gagnvart verðbólgu og launum annarra.

     Stéttarfélögin vilja tryggja umframleiðréttingu til þeirra hópa sem dregist hafa aftur úr á yfirstandandi samningstímabili,  færa taxta að greiddu kaupi og tryggja þar með öryggisnetið.
    Launafólk á almennum markaði á ekki eitt og sér að bera ábyrgð á stöðugleikanum. Ábyrg stefna stjórnvalda er varðar lækkun á verðbólgu og almennan stöðugleika er forsenda þess að launahækkanir skili sér í auknum kaupmætti.  
     Áhersla verði lögð á að útrýma launamun kynjanna, en fram hefur komið að óútskýrður launamunur innan félaganna er ennþá fyrir hendi og þessum mun vilja stéttarfélögin útrýma með markvissum aðferðum í samstarfi við atvinnurekendur.
Unnið skal að því að stytta heildarvinnutímann á samningstímabilinu en fram hefur komið í viðhorfskönnun Flóafélaganna að launafólk leggur þunga áherslu á að stytta vinnutímann sem er allt of langur. 
     Félögin vilja ræða við Samtök atvinnurekenda um hvernig bæta megi veikinda-, slysa-, lífeyris- og örorkuréttindi á almennum markaði.  Ákvæði um slysatryggingar verði teknar til heildarendurskoðunar og tryggingaupphæðir verði stórhækkaðar til samræmis við það sem best gerist í samningum hér á landi.
    Tryggja ber stöðu starfsmenntasjóðanna með hækkun á framlagi til starfsmenntasjóða til að standa undir auknum kröfum um menntun launafólks. 
    Krafist er skýrra opnunarákvæða vegna verðbólgu og launahækkana annarra hópa.  Aðeins þannig verður tryggt að svigrúm í atvinnulífinu komi til skipta fyrir allan almenning en ekki  bara til útvalinna hópa.  Almennt launafólk sættir sig ekki við að sitja eftir í launaþróun í þjóðfélaginu.
    Umræða um samningstíma fari fram um leið og viðræður eiga sér stað um kaupliði.  Stefnt verði að samningi til tveggja ára.