Málin verða að skýrast um áramót

18. 12, 2007

Vonbrigði að ekki tókst að ljúka samningum fyrir áramót

Málin verða að skýrast um áramót

-segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar

Samningaviðræður hafa gengið hægar en við hefðum viljað, segir Sigurður Bessason, formaður samninganefndar Flóabandalagsins. Sérkjaraviðræður hafa þokast áfram en varðandi kaupliðina þá bíðum við enn eftir upplýsingum og nánari útfærslum til að geta rætt málið í samninganefnd stéttarfélaganna. Það eru vonbrigði að hafa ekki getað lokið þessum samningum fyrir áramót eins og stefnt var að. En þær útfærslur sem verið er að ræða eru flóknar og til margs að líta og umræðan hefur farið hægt af stað. Einnig er beðið viðbragða stjórnvalda við tillögum ASÍ í skattamálum, segir hann.

Í þeim viðræðum við ríkisstjórnina hafa forystumenn landssambanda ASÍ og stærstu félaga kynnt mikilvægar áherslur í skatta- og velferðarmálum. Viðbrögð stjórnvalda  við tillögum ASÍ hafa ekki komin fram ennþá en búist er við þeim á næstu dögum.
Á meðan þessar viðræður hafa átt sér stað höfum við reynt að einbeita kröftum okkar að sérkjarasamningum og eru margir hópar að störfum í þeim. Viðræður standa yfir við atvinnurekendur og búið að kynna sjónarmið okkar megin í flestum hópum fyrir fyrirtækjum og Samtökum atvinnulífsins.
Sigurður segir að strax upp úr áramótum verði málin að skýrast að því marki að hægt sé að kynna bæði helstu þætti sem til umræðu eru við atvinnurekendur svo og tillögur ríkisstjórnarinnar.
Ljóst er að það markmið viðræðuáætlunar að ná kjarasamningum fyrir áramót mun ekki takast. Það eru auðvitað vonbrigði að hafa ekki getað lokið þessum samningum eins og stefnt var að. Samkvæmt viðræðuáætlun geta bæði atvinnurekendur og stéttarfélögin vísað stjórn samningaviðræðna til sáttasemjara hafi samningar ekki tekist fyrir þann tíma.
Hann sagðist ánægður með vinnuna í sérkjarasamningunum þar sem trúnaðarmenn okkar og samningamenn hafa unnið gott starf  við undirbúning samninganna.
Staðan er því þannig núna að við þurfum að hella okkur í þetta að krafti eftir áramótin og láta reyna á samningsvilja atvinnurekenda og um leið þrýsta á stjórnvöld því þau halda á öðrum lyklinum að því að ná árangri í þessum kjarasamningum, sagði hann að lokum.