Fyrirmyndar fyrirtæki!

18. 04, 2008

Fyrirmyndar fyrirtæki!

Efling styður Fjölsmiðjuna á Akureyri

Efling stéttarfélag hefur um nokkurt skeið styrkt starf Fjölsmiðjunnar í Kópavogi með ýmsum hætti. Síðastliðið vor var stofnuð Fjölsmiðja á Akureyri. Efling á og rekur sex orlofsíbúðir þar sem notið hafa mikilla vinsælda. Nú stendur yfir endurnýjun á húsbúnaði og fleiru í þeim íbúðum og er margt af því sem skipta á um í vel nothæfu ástandi.  Efling hafði samband við Fjölsmiðjuna  á staðnum og bauð þeim að nýta sér það sem þeir vildu af húsgögnum og öðrum munum og er skemmst frá því að segja að þeir þáðu með þökkum allt sem til féll.

Fjölsmiðjan hóf starfsemi árið 2001 og voru stofnaðilar Rauði krossinn, Félagsmálaráðuneytið, Vinnumálastofnun og sveitarfélög.
Fjölsmiðjan er vinnusetur fyrir ungt fólk sem af ýmsum ástæðum stendur á krossgötum í lífinu, hefur til dæmis flosnað úr námi eða vinnu. Þar gefst ungmennum tækifæri og aðstoð til að finna sig að nýju og þjálfa sig fyrir almenna vinnumarkaðinn eða áframhaldandi nám.
Er það von Eflingar að allt komi þetta að góðum notum og það merkilega og góða starf sem er unnið hjá Fjölsmiðjunni megi eflast og dafna í framtíðinni.
Á meðfylgjandi mynd má sjá hluta þeirra muna sem Fjölsmiðjan fékk og einnig er Erlingur Kristjánsson, sem veitir Fjölsmiðjunni nyrðra forstöðu, þakkar Sveini Ingvasyni forstöðumanni orlofssviðs Eflingar fyrir.