Hjúkrunarheimilin undir SFH

16. 06, 2008

Hjúkrunarheimilin undir SFH

Mikil og vaxandi óánægja

-segir Rannveig Gunnlaugsdóttir á Hrafnistu

Mikillar óánægju er farið að gæta með stöðuna í samningamálum á hjúkrunarheimilunum, segir Rannveig Gunnlaugsdóttir sem starfar við umönnun á Hrafnistu. Það er nú liðið vel á þriðja mánuð síðan samningar voru lausir og enn bólar ekkert á launabreytingum hjá okkur. Á þessum tíma hefur verið bullandi kjaraskerðing og nú er fólk að fara í sumarleyfi og það munar um þær hækkanir sem komu inn í gegnum ríkissamninginn. Það hefur verið  jákvæður andi gagnvart sambærilegum breytingum til okkar en þessi mikli dráttur á samningnum er á góðri leið með að skemma það andrúmsloft. Okkur finnst það líka algert ábyrgðarleysi að það vísar hver á annan. Það er ríkið sem fjármagnar þennan samning og eftir engu að bíða. Við höfum reynslu af því hér á þessum vinnustað að grípa til aðgerða en það er auðvitað þrautalending, segir Rannveig.

Rannveig segir að það hafi verið nógu erfitt fyrir starfsfólk hjúkrunarheimilanna að sætta sig við það að ekki yrði tekið sérstaklega á kjaramálum umönnunarstéttanna í þessum samningi. Flestir eru sáttir við skammtímasamning til eins árs. En það er mikil tortryggni gagnvart stjórnmálamönnunum sem tala sífellt um að gera vel við umönnunarstéttir en þegar á reyni þá séu efndirnar litlar. Fólk þurfi að bíða allt of lengi eftir sjálfsögðum leiðréttingum. En hvað er til ráða?

Við skorum á ráðamenn og forsvarsmenn heimilanna að ganga frá þessu strax. En verði ekkert að gert þá eigum við fáa kosti. Við getum ekki setið og beðið endalaust. Við höfum áður farið í aðgerðir hér og hver á þá að hugsa um gamla fólkið sem ekki fær þá þjónustu sem því ber, spyr Rannveig Gunnlaugsdóttir.