Verðkannanir ASÍ?


Er eitthvað athugavert við

Verðkannanir ASÍ?

spyr Þráinn Hallgrímsson

Síðustu vikur hefur framkvæmdastjóri Haga farið mikinn gegn verðkönnunum ASÍ og fundið þeim allt til foráttu. Niðurstöður ASÍ sýndu á sínum tíma að virðisaukaskattslækkunin skilaði sér ekki í vöruverði hjá verslunum 10 -11og þá kallaði  fyrirtækið til dómkvadda matsmenn til að leggja mat á hvort lækkunin hefði skilað sér. Þegar niðurstaða þeirra, byggð á rafrænum gögnum frá fyrirtækinu sjálfu lá fyrir, töldu Hagar það vera sönnun þess að niðurstöður ASÍ um að skattalækkunin hefði ekki skilað sér í verðlaginu væri röng. ASÍ hefur margbent á að þessar niðurstöður segi ekkert um verðkannanir Alþýðusambandsins. Allt þetta mál nú rifjar upp hvernig staðið hefur verið að verðkönnunum allt frá þjóðarsáttinni frægu 1990. Þá var talsverð samstaða um það milli samtaka atvinnurekenda og stéttarfélaganna að sýna verðlagi aðhald með stöðugu verðlagseftirliti og haldgóðum upplýsingum til neytenda. Síðan þá virðast samtök stórra verslanakeðja hafa stöðugt sótt að óháðum verðkönnunum en krafa þeirra nú er að þessar kannanir verði færðar frá ASÍ til óháðra, opinberra aðila. Ljóst er að ef orðið verður við þessari kröfu, þá er þetta aðhald að versluninni endanlega úr sögunni. Hér á eftir er brugðið ljósi á sögu verðlagskannana síðustu árin.

Mikið aðhald á þjóðarsáttartíma

Mikið aðhald var gagnvart hækkunum á verðlagi og þjónustu eftir þjóðarsáttina sem gerð var árið 1990. Verkalýðsfélögin um allt land tóku upp virkt verðlagseftirlit og þáverandi Vinnuveitendasamband stóð með launafólki um mikilvægi virks verðlagseftirlits. Neytendasamtökin tóku einnig þátt í þessu aðhaldi með könnunum á sínum vegum og í samstarf við verkalýðsfélögin. Kannanir á vöruverði, sérstaklega í matvöruverslunum var birt oft vikulega og verðlagsfulltrúar heimsóttu verslanir og fólk tilkynnti um það sem það taldi vera óeðlilegar hækkanir á vöru og þjónustu. Að sumu leyti var auðveldara um vik þar sem verð á búvörum hafði verið fryst, samkomulag var um lækkun vaxta og um að draga úr verðhækkunum á opinberri þjónustu. Það var samt þannig að forsvarsmenn einstakra verslana voru mjög óhressir ef þeir komu illa út í könnunum eða það kom fram að þeir höfðu hækkað verð óeðlilega.

Samstarf verkalýðsfélaganna og Neytendasamtakanna

Upp úr þessum jarðvegi spratt samstarf stéttarfélaganna og Neytendasamtakanna og voru ráðnir starfsmenn og sett upp verðlagseftirlit á vegum þessara aðila með stuðningi ASÍ á tímabilinu 1998-2000. Segja má að allan tímann sem þetta verðlagseftirlit var starfandi hafi stóru verslunarkeðjurnar haft horn í síðu þessa starfs og þegar smávægileg mistök voru gerð í könnun árið 2000, hófst mikil áróðursherferð sem minnir mjög mikið á það sem nú er að gerast af hálfu Haga gagnvart verðkönnunum ASÍ. Á þessu síðasta ári samstarfsins ákváðu stéttarfélögin og ASÍ að slíta samstarfinu enda var þá í sjónmáli stuðningur stjórnvalda við Alþýðusambandið um að ASÍ myndi taka að sér þessa þjónustu.

Andstaðan ekkert nýtt

Andstaða stóru verslanakeðjanna er því ekkert nýtt. Þær hafa leynt og ljóst unnið gegn óháðum könnunum í meira en áratug. Staðreyndin er sú að þær vilja ekki að óháðir aðilar á vegum neytendasamtaka eða stéttarfélaga og samtaka þeirra fylgist með verðlagi í verslunum. Þeir vilja einfaldlega geta stjórnað verðmynduninni sjálf.

Krafan um að opinberir aðilar sjái um verðkannanir

Nú er krafa Haga sú að ríkið hætti stuðningi við Verðlagseftirlit ASÍ og það verði fært undir opinbera stofnun. Hagstofan hefur verið nefnd í því sambandi. Ljóst er að þetta er krafa um að kraftmikið og skilvirkt verðlagseftirlit af hálfu neytenda verði úr sögunni. Fullyrða má að opinber stofnun mun ekki geta sinnt þessu hlutverki og má færa margvíslega rök fyrir því. Mikilvægt er að ASÍ slaki ekki á þeirri stefnu sem sambandið hefur unnið á undanförnum árum með góðu starfi í þessum málaflokki. Vonandi lætur núverandi viðskiptaráðherra ekki glepjast af áróðri stóru verslanakeðjanna og stendur við bakið á neytendum og launafólki í þessu efni.

Höfundur er skrifstofustjóri Eflingar og tók þátt í stýrihópi verðlagseftirlits stéttarfélaganna og Neytendasamtakanna sem vísað er til í þessari grein