Félagsfundur Eflingar

23. 10, 2008

Félagsfundur Eflingar

Óháðir aðilar rannsaki bankakreppuna

Það er ófrávíkjanleg krafa almennings að rannsókn fari fram á atburðaráðs bankakreppunar.  Efling-stéttarfélag telur mjög mikilvægt að óháðir aðilar sem ekki tengjast stjórnvöldum eða núverandi fjármálakerfi verði kallaðir að því verkefni segir í ályktun af fjölmennum félagsfundi Eflingar í gærkvöldi. Efling krefur einnig stjórnvöld skýringar á því að hafa ekki staðið við fullyrðingar um að séreignarsparnaður nyti verndar með aðgerðum ríkisstjórnarinnar.
Efling-stéttarfélag hvetur stjórnvöld til þess að hraða öllum ákvörðunum til að létta þeirri óvissu sem nú hvílir á einstaklingum, fjölskyldum og öllu atvinnulífi landsmanna vegna fjármálakreppunnar hér á landi.
Ljóst er að með hverjum degi sem líður tapast gríðarleg verðmæti  og traust sem erfitt verður að endurheimta.
Minnt er á að stjórnvöld hétu því að allt sparifé landsmanna og séreignarsparnaður yrði varinn jafnframt því sem sjóðir sem jafngiltu sparifé yrðu varðir að mestu með aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Eingöngu hefur verið staðið við þann hluta sem varðar innlánsreikninga.
Ríkið skuldar almenningi fullnægjandi svör um það að hve miklu leyti stjórnin hyggst efna þessi fyrirheit.