Könnun Capacent Gallup

30. 10, 2008

Könnun Capacent Gallup

Lægstu launin hjá sveitarfélögunum

Í nýrri könnun sem að Capacent Gallup vann í september og október kemur fram að meðaldagvinnulaun hjá félagsmönnum Eflingar hafa hækkað úr 201 þúsund krónum í 228 þúsund krónur.  Eftir starfssviði eru dagvinnulaunin lægst hjá borg eða sveitarfélögum eða 187 þúsund krónur en enn er ósamið við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.  Hæstu dagvinnulaunin eru hins vegar í bygginga- eða mannvirkjagerð eða 290 þúsund krónur.  Þá kemur ekki á óvart að sjá að þegar spurt er hversu sáttur eða ósáttur viðkomandi er með laun sín, þá segjast yfir 70% þeirra sem starfa hjá borg eða sveitarfélögum vera ósáttir með laun sín en sé allur hópurinn skoðaður þá eru um 49% ósáttir með laun sín. Nokkrar niðurstöður könnunarinnar má sjá hér að neðan en könnunina sjálfa má finna á vef Eflingar.

Heildarlaun um 296 þúsund

Heildarlaun eru talsvert mismunandi eftir störfum.  Þannig eru heildarlaun leiðbeinenda, sem eru að mestu leyti starfandi hjá borg eða sveitarfélögum, að meðaltali 212 þúsund krónur en iðnaðarmenn eru með hæstu launin eða 368 þúsund krónur að meðaltali. Talsverður launamunur er ennþá milli kynja en karlar hafa nú að meðaltali 355 þúsund krónur og konur 239 þúsund krónur.

Dagvinnulaun um 228 þúsund

Sé meðaltal dagvinnulauna fyrir fullt starf greint eftir störfum skera leiðbeinendur sig úr með lægsta meðaltal dagvinnulauna eða 188 þúsund krónur.  Þá eru iðnaðarmenn með 272 þúsund krónur að meðaltali í dagvinnulaun og þeir sem starfa við umönnun með 204 þúsund krónur.

Vinnuvikan 46 stundir

Meðalvinnuvika félagsmanna í fullu starfi voru 45,5 klukkustundir á viku eða 48,7 hjá körlum og 41,7 hjá konum.  Meðalfjöldi yfirvinnustunda hjá félagsmönnum í fullu starfi tæpar 8 klukkustundir eða 12,5 hjá körlum og 4,1 hjá konum.

Fjárhagsleg staða

Tæplega helmingur félagsmanna eða 48% telur að fjárhagsstaðan sé svipuð og fyrir ári síðan.  Þegar spurt var hvort viðkomandi hefði dregið úr útgjöldum vegna verri fjárhagsstöðu eða hækkandi verðlags á síðastliðnum 12 mánuðum, höfðu yfir helmingur dregið úr útgjöldum vegna ferðalaga, tómstunda, húsgagna og bílainnkaupa.  Tæplega helmingur hafði dregið úr útgjöldum vegna eldsneytiskaupa og 45% dregið úr útgjöldum vegna matarinnkaupa.