Samningaviðræður hefjast við borgina

Samningaviðræður hefjast við borgina

Sérstök hækkun lægstu launa

Viðræðunefnd Eflingar-stéttarfélags hitti samninganefnd borgarinnar á fyrsta fundi í gær um endurnýjun kjarasamninga við borgina. Efling lagði þar fram megináherslur félagsins vegna borgarstarfsmanna. Þær miða að því að félagsmenn hjá borginni fái leiðréttingu launa eins og aðrar stéttir launamanna hafa fengið á þessu ári og telur félagið að hækka þurfi lægstu laun sérstaklega í komandi samningum. Félagið leggur jafnframt til að starfsmatskerfið verði skoðað með tilliti til þess hvernig til hefur tekist á samningstímabilinu og hæfnislaunakerfið verði endurskoðað. Þá er mjög mikilvægt að endurskoða uppbyggingu starfa í umönnun með hliðsjón af störfum í leikskólunum.  Efling hefur lagt áherslu á skamman samningstíma að þessu sinni með tilliti til stöðunnar í efnahagsmálum og leggur til að samningstíminn verði svipaður og hjá ríkinu.