Félagsliði hvað er það?

       Jenný Jensdóttir, Lilja Eiríksdóttir, Jónína Sigurðardóttir, Fanney Friðriksdóttir og Inga K Gunnarsdóttir eru í nýrri stjórn Faghóps félagsliða innan Eflingar.

Félagsliði – hvað er það ?

Starf okkar í heimaþjónustunni er fólgið í aðstoða fólk heima fyrir sem getur spannað allt frá litlu samtali til þess að gefa lyf eða augndropa, aðstoða við að baða, matast og klæðast.  Eins getum við þurft að sinna mjög erfiðum og alvarlegum geðrænum vandamálum en það er stór þáttur að vera til taks, spjalla og sýna manneskjunni áhuga sem einstakri persónu, sem margir hverjir hafa lifað tímana tvenna. Þetta er aðeins hluti af þeim verkefnum sem félagsliðar vinna.  Faghópur félagsliða hefur nú starfað  innan Eflingar á fjórða ár og teljum við mikilvægt að vekja athygli á störfum okkar. En það er fleira sem félagsliðar sinna og tengist fjölskylduaðstæðum eða vanda sem við er að glíma.

Þannig getur margt verið að brjótast um hjá öldruðum sem margir búa við mikla félagslega einangrun og eiga kannski fáa að.  Viðkvæm málefni fjölskyldunnar sem þeir heyra um geta valdið miklum áhyggjum.  Við slíkar aðstæður geta magnast upp hjá þeim vanlíðan vegna þess að þeir vilja eða þora ekki að spyrja um ástandið þar sem fjölskyldan hafi nóg á sinni könnu.

Þekking fólks á störfum félagsliða hefur aukist  talsvert á undanförnum þremur árum en þekking og kunnátta félagsliða byggist á vönduðu námi sem þeir þurfa að stunda til að verða félagsliðar.
 
Í félagsliðanáminu er m.a. kennd lyfjafræði, næringarfræði og heilbrigðisfræði en ekki síst ber að nefna mikilvæga þætti svo sem 17 einingar í sálfræði, siðfræði, félagsfræði, aðstoð og umönnun.  Þá er einnig boðið upp á fjögurra eininga viðbótarnám um heilabilun.
Stór hópur félagsliða starfar á velferðarsviði Reykjavíkurborgar en þá fjölgar einnig félagsliðum sem starfa á hjúkrunarheimilum og dagdeildum fyrir heilabilaða. 

Hvatning er mikilvæg
Þegar vel gengur að aðstoða einstaklinginn eftir veikindi  og geta þau farið að sækja í félagsstarf og hitta annað fólk og er það mjög ánægjulegt að fylgjast með þegar vel tekst til, því það er svo gott að finna að hvað lífið er mikils virði.  Þá er stór þáttur í starfi félagsliða að hvetja einstaklinginn til dáða og hrósa honum fyrir hvert lítið skref sem honum tekst að ná sér út úr einangrun.

Með fjölgun aldraðra og síaukinni kröfu að vera lengur heima hefur starf félagsliða orðið góð viðbót við aðrar stéttir innan heilbrigðisgeirans.  Það má segja að starf félagsliða byggist á að hjálpa fólki öðruvísi en með „plástri“. Í umhverfi hjúkrunarheimila er mannlegi þátturinn sem að félagsliði sinnir afar mikilvægur þar sem umhverfið virkar oft stofnanalegt á einstaklinginn.

Það er mjög mikilvægt að við snúum öll bökum saman í heilbrigðis- og félagsþjónustunni,  vinnum saman, virkjum hvert annað og látum gott af okkur leiða og gerum okkar besta til að allir fái notið sín eins og kostur er, ekki síst á þessum erfiðu tímum.

Faghópur félagsliða hjá Eflingu-stéttarfélagi er nú á sínu fjórða starfsári en innan Eflingar-stéttarfélags hafa um það bil tvöhundruð manns lokið félagsliðanámi og um eitthundrað nemendur eru nú við nám. 

          Stjórn Faghóps félagsliða