Samningur framlengdur 2


Sigurður Bessason og Hallur Páll Jónsson skrifa undir nýjan kjarasamning borgarinnar og Eflingar með nýjum ríkissáttasemjara Magnúsi Péturssyni

Reykjavíkurborg

Samningur framlengdur

Gengið var frá samkomulagi við Reykjavíkurborg um framlengingu á kjarasamningi aðila í húsnæði ríkissáttasemjara laugardaginn 29. nóvember sl.  Í ljósi erfiðleikanna í íslensku efnahagslífi var ljóst að það gæti orðið snúið að ná ásættanlegri niðurstöðu.  Efling setti fram fá og nokkuð skýr meginmarkmið.  Lægstu launataxtar í Reykjavíkurborgarsamningi voru í kringum 124 þúsund kr. eða ríflega 20þúsund kr. undir tekjutryggingu sem gildir nú á almennum vinnumarkaði. Það var ófrávíkjanleg krafa af hálfu Eflingar að starfmenn Reykjavíkurborgar væru ekki undir því viðmiði.  Það náðist þar sem að launataxtar hækkuðu um 20.300 eða um sömu upphæð og samið var við ríki og hjúkrunarheimili fyrr á þessu ári.

Samræmingu náð við aðra sambærilega hópa

Í samkomulagi Eflingar-stéttarfélags við Reykjavíkurborg sem gildir frá 1. nóvember 2008 hækkuðu launataxtar um 20.300 kr.  Auk þess hækkar framlag Reykjavíkurborgar í sjúkrasjóð úr 0,55% í 0,75%.  Réttur foreldra til fjarveru á launum vegna veikinda barna var aukinn úr 10 í 12 daga. Reykjavíkurborg leggur til 0,13% gjald í endurhæfingarsjóð sem á að takast á við vaxandi örorku og styðja þá sem lenda í skertri vinnugetu til áframhaldandi starfa á vinnumarkaði.
Allt eru þetta atriði sem að þegar hafði verið samið við ríki og hjúkrunarheimili fyrr á þessu ári.
Taxtar fyrir tímamælda ákvæðisvinnu hækkuðu um 16% og í nýrri bókun kom fram vilji beggja aðila að fara í nánari athugun á fyrirkomulagi ræstingarvinnu.

Yfirlýsing um sameiginlega niðurstöðu á almennum og opinberum vinnumarkaði

Kjarasamningurinn framlengist til 31. ágúst 2009 en gengið var frá yfirlýsingu þess efnis  að náist sátt um sameiginlega niðurstöðu á almennum og opinberum vinnumarkaði þá muni sú niðurstaða gilda frá þeim tíma og með þeim breytingum sem að niðurstaðan felur í sér.
Nú þegar hafa verið lögð fram drög að slíkri sameiginlegri vinnu en þann 27. nóvember sl. áttu fulltrúar helstu aðila á íslenskum vinnumarkaði sameiginlegan fund til að kanna möguleika á því að ná víðtækri sátt um launa- og kjarastefnu til ársins 2010 vegna þeirra kjarasamninga sem eru til endurskoðunar í febrúar á næsta ári.  Þar voru einnig fulltrúar Reykjavíkurborgar.

Niðurstöður atkvæðagreiðslu

Samkomulagið verður nú kynnt félagsmönnum Eflingar sem starfa hjá Reykjavíkurborg á næstu dögum og borinn undir atkvæðagreiðslu en niðurstöður atkvæðagreiðslu munu liggja fyrir föstudaginn 12. desember klukkan 15.00.