stjórnvöld tímasetji framkvæmdir

10. 12, 2008

     Boðinn og Efling

Stjórnvöld tímasetji framkvæmdir

Á fjölmennum fundi trúnaðarráða Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans og Eflingar-stéttarfélags í gærkvöldi var samþykkt að skora á ríkisstjórnina tímasetja nú þegar þær mannaflsfreku framkvæmdir sem stjórnvöld hafa boðað á næstu mánuðum. Ályktunin er svohljóðandi.

Sameiginlegur fundur Trúnaðarráða Eflingar-stéttarfélags og Verkalýðs- og sjómannafélagsins Boðans haldinn 9. desember lýsir yfir þungum áhyggjum af þróun atvinnumála á undanförnum vikum. Á níunda þúsund manns eru nú án atvinnu á landinu og í hverri viku bætast við mörg hundruð manns á skrána.

Ríkisstjórnin hefur lýst því yfir stefnt verði að mannaflsfrekum, atvinnuskapandi aðgerðum á vegum ríksins með þátttöku sveitarfélaganna og aðila vinnumarkaðarins.

Félögin krefjast þess að stjórnvöld tímasetji nú þegar þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru  þannig að hægt sé að búa til öfluga viðspyrnu í atvinnumálum.

Atvinnuleysisbölinu verður að bæja frá dyrum landsmanna með öllum tiltækum ráðum. Félögin skora á ríkisstjórn,  sveitastjórnir og atvinnurekendur að taka höndum saman um þetta mikilvæga verkefni.