einkareknir leikskólar, kynningarfundur

23. 01, 2009

      Einkareknir leikskólar

Kynningarfundur um samningana

Nú standa yfir kynningarfundir um kjarasamning Samtaka sjálfstæðra skóla og hér má sjá Hörpu Ólafsdóttur, hagfræðing Eflingar spjalla við áhugasama félagsmenn á leikskólum stúdentagarðanna við Eggertsgötu.
Með þessum samningi má segja að hringnum sé lokið í kjarasamningum Eflingar við viðsemjendur sína.  Í febrúar 2008 var fyrst samið við Samtök atvinnulífsins en um 80% af félagsmönnum Eflingar taka mið af þeim samningi.  Samningur við ríki og hjúkrunarheimili fylgdi í kjölfarið með gildistíma frá 1. apríl 2008 og í lok ársins var samið við Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.  Ýmis fyrirtæki og aðilar taka mið af sveitarfélagasamningum svo sem Sorpa og einkareknir leikskólar.
Allir þessir samningar hafa það sammerkt að lögð var höfuðáhersla á að hækka lægstu launin með krónutöluhækkun á launataxta.  Það var með öðrum orðum verið að tryggja öryggisnetið sem skilar sér einmitt vel núna þegar viðbótargreiðslum hefur verið sagt upp vegna yfirstandandi efnahagsþrenginga.
Um 250 félagsmenn Eflingar starfa innan Samtaka sjálfstæðra skóla og er Efling þessa dagana að fara á milli skólanna og eftir kynningu á samningnum er félagsmönnum boðið að greiða atkvæði um samninginn.   Hér gefst einnig kjörið tækifæri að sækja vinnustaði heim og kynna fyrir félagsmönnum réttindi þeirra svo sem varðandi heilsueflingu, fræðslustyrki o.fl.