Fresta opnunarákvæðum kjarasamninga

13. 02, 2009

     Einróma samþykkt Flóafélaganna

Fresta opnunarákvæðum kjarasamninga

Það liggur fyrir að Samtök atvinnulífsins segi upp kjarasamningnum og ríkisstjórnin hefur ekkert framtíðarumboð til að skapa samningsgrundvöll við ríkið. Í ljósi gríðarlegs atvinnuleysis og erfiðs efnahagsástands framundan, teljum við því skársta kostinn að fresta opnunarákvæðum kjarasamningsins enda er launahækkunin ekki í hendi, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar og talsmaður Flóabandalagsins. Fjölmennur fundur Flóafélaganna samþykkti í gærkvöldi einróma að fresta opnunarákvæðum samninganna. En áður höfðu stjórnir og trúnaðarráð félaganna ályktað á sama veg.  Ályktun félaganna fer hér á eftir.

Fundur samninganefndar Eflingar-stéttarfélags, Verkalýðsfélagsins Hlífar og Verkalýðs og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis haldinn 12. febrúar 2009 samþykkir að fresta framkvæmd opnunarákvæðis kjarasamningsins fram yfir ríkisstjórnarmyndun að afloknum kosningum til Alþingis. Fresturinn verði notaður til þess að leita samkomulags við atvinnurekendur um viðbrögð og kalla nýja ríkisstjórn að þeim viðræðum með það að markmiði að stuðla að framgangi samningsins og lausn kjaramála næstu tveggja ára.                                                                                                                                           

Það liggur fyrir samkvæmt 20.grein kjarasamnings aðila að hvorug meginforsenda samninganna er varðar framlengingu heldur. Þar sem forsendur samninganna eru brostnar, þá skal kalla saman fund samninganefndar ASÍ og SA. Verkefni nefndarinnar er að ,,leita samkomulags um viðbrögð til að stuðla að framgangi markmiðs samningsins, festa forsendur hans í sessi og tryggja að samningurinn haldi gildi sínu“  eins og segir í kjarasamningnum.

Með því að fresta framkvæmd opnunarákvæða samningsins verður leitast við að ná meginmarkmiðum kjarasamningsins en það þýðir að reynt verður að ná nýju samkomulagi um tímasetningu kaupliða meðan aðrir liðir og samningurinn sjálfur halda gildi sínu.