Ályktun Eflingar-stéttarfélags um arðgreiðslur Granda hf

16. 03, 2009

     Ályktun Eflingar-stéttarfélags um arðgreiðslur Granda hf

Launahækkun komi þegar í stað til framkvæmda

Stjórn HB Granda hefur ákveðið að leggja til við aðalfund félagsins að greiddur verði  8% arður til hluthafa vegna ársins 2008. Efling-stéttarfélag átelur stjórn fyrirtækisins fyrir að útdeila arði til hluthafa félagsins á sama tíma og öll áhersla í samfélaginu er á að beina öllum fjármunum sem hægt er til atvinnusköpunar og atvinnuuppbyggingar. Í ljósi þess að samtök atvinnurekenda og launafólks á vinnumarkaði hafa ákveðið að fresta launahækkunum um tíma, er ákvörðunin hrein ögrun við launafólk.
Ljóst er að samkomulag sem aðilar vinnumarkaðins samþykktu um að fresta opnunarákvæðum kjarasamninga, bindur ekki einstaka atvinnurekendur í fyrirtækjum sem búa við arðsaman rekstur. Þeir hljóta að veita launafólki sínu þær launahækkanir sem eru í núgildandi kjarasamningi.
Efling-stéttarfélag skorar hér með á stjórn HB Granda í ljósi  arðgreiðslna til hluthafa og yfirlýsinga um að fyrirtækið standi vel rekstrarlega að taka nú  ákvörðun um að launahækkunin til starfsmanna Granda hf komi þegar í stað til framkvæmda.