2000 félagar Eflingar á atvinnuleysisskrá

20. 04, 2009

    Miklar sviptingar á vinnumarkaði

Um 2000 félagar í Eflingu á atvinnuleysisskrá

Fjöldi félagsmanna Eflingar sem eru á skrá hjá Vinnumálastofnun eru um tvö þúsund manns.  Þar af störfuðu um 450 manns við störf sem tengjast bygginga- og mannvirkjagerð. 
Frá 2005 til 2008 fjölgaði félagsmönnum Eflingar um fimm þúsund en í febrúar 2005 voru þeir um 17.400 manns en um 22.500 í febrúar 2008.  Samkvæmt skráningartölum fyrir febrúar 2009 virðist félagsmannafjöldinn vera kominn í svipaða tölu og hann var í febrúar 2005 eða ríflega 17 þúsund manns.  Þetta er gríðarleg fækkun á svo skömmum tíma og ástæðan fyrir því að hópurinn skilar sér ekki í meira mæli inn í skráningu hjá Vinnumálastofnun skýrir sig að hluta til af því að hlutfall erlends vinnuafls var orðið mjög hátt á árinu 2008.  Í febrúar 2008 var hlutfall erlends vinnuafls um 42% en er nú um 37% þannig að hluti af þessum hópi er nú væntanlega farinn af landi brott.  Í febrúar 2005 var hlutfall erlenda hópsins um 18% og er því líklegt að hlutfallið muni eitthvað lækka áfram úr því sem það er nú.

Atvinnuleysið mest í byggingageiranum
Þau störf sem hafa tapast eru langfjölmennust í byggingageiranum en þau virðast nú vera komin í svipaða tölu og þau voru í febrúar 2005 eða um 1500 manns en í febrúar 2008 voru tæplega 4þúsund manns starfandi í þessum geira.  Hlutfall erlends vinnuafls í þessari atvinnugrein var mjög hátt 2008 eða yfir 60%.

Breiður starfahópur hjá Eflingu
Það er mikill styrkur fyrir félagið að félagsmenn Eflingar starfa á mjög breiðu sviði en það er ljóst að hin snögga atvinnuleysisaukning kemur mishart niður á atvinnugreinar og því hefur félagið meira bolmagn til að styðja við bakið á þeim félagsmönnum sem misst hafa vinnuna.  Um 80% af félagsmönnum starfar á almenna markaðnum við ólík störf svo sem ýmsan iðnað, hótel- og veitingageira, bensínafgreiðslustörf, mötuneytisstörf, ræstingar og fleira.  Þá starfa um 10% af félagsmönnum Eflingar hjá ríki, hjúkrunarheimilum og sjálfseignarstofnunum.  Þeir sem starfa hjá Reykjavíkurborg og öðrum sveitarfélögum telja um 10%.