Ræstingafólki tryggð störf

    Fundað um störfin með heilbrigðisráðherra

Ræstingafólki í Fossvogi tryggð störf

– segir Ögmundur Jónasson, heilbrigðisráðherra

Ögmundur Jónasson sagði á fundi sem hann boðaði til 6. apríl um heilbrigðisþjónustu á tímamótum að LSH og hann væru sammála um að tryggja ræstingarfólki hjá LSH í Fossvogi áframhaldandi störf.  Til þessa fundar boðaði ráðherrann trúnaðarmenn innan BSRB og Starfsgreinasambandsins sem starfa við heilbrigðisþjónustu hjá ríki og hjúkrunarheimilum.  Fundurinn sem var mjög vel sóttur enda margt sem brennur á starfsmönnum sem vinna innan heilbrigðisgeirans og finna nú fyrir niðurskurðarhnífnum sem aldrei fyrr.

Fundargestir voru ósparir á að koma sjónarmiðum sínum um stöðu heilbrigðismála á framfæri við heilbrigðisráðherra.  Ögmundur greindi frá því að hann væri sérlegur áhugamaður um útboðsmál og fundaði vikulega með forsvarsmönnum Landspítalans um fjárhagsstöðu spítalans og þar með talin atvinnumálin.  Ljóst væri að þvottahúsið færi ekki í útboð og eins fylgdist hann grannt með útboðum í mötuneytisstörfum.  Varðandi ræstingastörf  á LSH í Fossvogi kom fram að ræstingafyrirtækið ISS hefði kært útboðið og því lægi ekki ljóst fyrir með framhaldið á því máli.  En ráðherrann bætti við að á sínum vikulegum fundum með forstjóra Landspítalans væri alltaf tekin staðan hjá þessum hópi, þar sem aðilar voru sammála um að tryggja þessum hópi áframhaldandi störf.  Ögmundur  lýsti yfir áhyggjum sínum á því að ef starfsmennirnir fengju störf hjá nýju ræstingafyrirtæki sem starfaði undir samningssviði almenna markaðarins, þá myndu þessir starfsmenn búa við lakari lífeyrissjóðsréttindi.  Við spurningunni um ávinning ríkisins við útboð á þessum störfum þar sem að áfram þyrfti að ræsta spítalann svaraði ráðherrann því til að hann væri óverulegur enda hefði hann ávallt mælst til þess að skerða frekar laun þeirra sem væru í tekjuhæsta hópnum.

Þá var bent á að eftir því sem fleiri störf töpuðust í heilbrigðisgeiranum, þeim mun meiri vanda hefði félags- og tryggingamálaráðherra við að greiða atvinnuleysisbætur úr stöðugt rýrnandi sjóði.

Töluverðar umræður spunnust um að með því að skerða laun þessa tekjulægsta hóps ríkisins sem væri að mestum hluta unninn af konum væri það aðför að launabaráttu kynjanna.  Þá var einnig fundargestum tíðrætt um að í góðærinu á liðnum árum hefði endalaust verið sparað í umönnunarstörfunum og takmörk fyrir því hvað langt væri hægt að ganga.  Í leikskólum lægi nokkuð ljóst fyrir hversu mörg börn ættu að vera í umsjón hvers starfsmanns en slíkar reglur vantaði við umönnun aldraðra eða í heilbrigðisþjónustunni almennt. 

Heilbrigðisráðherra var hvattur til þess að ef hann yrði áfram í ráðherrastól í nýrri ríkisstjórn að leggja minni áherslu á að funda með stjórnendum í heilbrigðisþjónustu líkt og forverar hans en leggja þeim mun meiri áherslu á að ræða við starfsmenn sem sinna hinum almennu störfum og kynna sér aðbúnað þeirra.

Komið var inn á mikilvægi þess að klippa á þær girðingar sem eru milli starfahópa innan heilbrigðisstéttarinnar og hvatti Halla Gunnarsdóttir fundarstjóri alla til að mæta á þriðja og síðasta fund heilbrigðisráðherra í þessari fundarröð þar sem kjörið væri að koma inn á þennan þátt.  Sá fundur er haldinn á Hótel Nordica, 7. apríl kl. 15-18 og er opinn öllum starfsmönnum innan heilbrigðisþjónustunnar.