Flóasamningur

27. 05, 2009

     Samninganefnd Flóans um stöðu kjarasamninga

Stöndum vörð um samninginn

„Við getum ekki verið samningslaus” sagði einn félagsmanna á fundi samninganefndar  Flóafélaganna í gærkvöldi. Þetta var tónninn á fundinum meðal fundarmanna að mikilvægt væri að standa vörð um þann kjarasamning sem í gildi er milli SA og Flóans.  Þar sköpuðust líflegar umræður og voru skoðanir skiptar á hvernig ætti að bregðast við þeim mikla vanda sem blasir nú við þegar samningar eru til endurskoðunar.

Á fundinum var farið yfir að báðir aðilar gætu sagt upp samningnum í ljósi þeirra forsenduákvæðna sem eru nú löngu brostnar en afar mikilvægt væri að tryggja áfram þau verðmæti sem fælust í samningnum, svo sem aukin orlofsréttindi og fleira.

Samninganefndarfólk var einhuga um að tryggja öryggisnetið en fram kom að þetta væri mjög breiður hópur sem kæmi að samningaborðinu og því flókið verkefni að finna samræmda lausn fyrir alla aðila vinnumarkaðarins.  Mjög mikilvægt væri að fá aðkomu ríkisstjórnar að samningaborðinu, þar sem meðal annars yrði farið yfir gengismálin, stýrivexti, gjaldmiðilinn og velferðarkerfið.

Rætt var um að þó svo að einhverjar atvinnugreinar svo sem hluti fiskvinnslunnar gæti staðið undir launahækkunum, þá væri allt önnur staða uppi í öðrum atvinnugreinum og nú væru um átján þúsund manns án atvinnu.

Á fundum með viðsemjendum okkar hjá ríki og sveitarfélögum er mjög þungt hljóð en þar hefur verið leitað allra leiða til að verja störfin.  Þeir telja lítið svigrúm til launahækkana og þegar hefur verið gripið til niðurskurðar sem myndi aukast enn frekar ef þrýst yrði á um launahækkanir.

Framundan verður fundað stíft með helstu viðsemjendum okkar, bæði á almenna markaðnum og eins hinu opinbera og kappkostað að ná ásættanlegri niðurstöðu.