Ræstingin í skoðun

15. 06, 2009


Starfsmenn á vegum Eflingar eru nú þessa dagana að sækja vinnustaði heim og fara yfir málin með starfsmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækja

Kjaramál

Ræstingin í skoðun

Undanfarna mánuði hefur framkvæmd tímamældrar ákvæðisvinnu í ræstingu verið í skoðun á kjaramálasviði Eflingar-stéttarfélags í samvinnu við Samtök atvinnulífsins.   Í því sambandi er meðal annars verið að bera saman framkvæmd ræstingarvinnu hér á landi við það hvernig þessi mál hafa verið að þróast á öðrum Norðurlöndum. Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur  Eflingar, segir mikilvægt að fylgjast með þróuninni á þessu sviði þar sem stöðugt fleiri ný fyrirtæki hasli sér völl á sviði þrifa og ræstingar og gæta verði hagsmuna starfsmanna sem oftar en ekki vinna einir eða í litlum hópum á vinnustöðum.

Líkt og í mörgum öðrum atvinnugreinum hefur átt sér stað jákvæð þróun í vinnuumhverfi ræstingafólks sem lýtur meðal annars að sérútbúnum áhöldum og tækjum svo og hreinsiefnum.  Einnig hefur rétt verkskipulag mikið að segja.  Þá eru ræstinganámskeið sem boðið er upp á í samvinnu við Eflingu í stöðugri þróun. Það er einkenni ræstingarstarfanna að það eru ekki stórir hópar á hverjum vinnustað, heldur fáir starfsmenn eða jafnvel starfsfólk að vinna einsamalt og hefur þess vegna ekki stuðning af félögum sínum en á sameiginlega hagsmuni með öðrum starfsmönnum á öðrum vinnustöðum.
Þess vegna er svo mikilvægt að ræstingarfólk hafi góðan stuðning frá félaginu og ramminn um störfin og kjörin byggi á traustum grunni. Það er því lykilatriði að góðar og réttar verklýsingar séu til staðar og að forsendur þar að baki séu réttar. Um þetta viljum við eiga samvinnu við atvinnurekendur.  Starfsmenn á vegum Eflingar eru nú þessa dagana að sækja vinnustaði heim og  fara yfir málin með bæði starfsmönnum og forsvarsmönnum fyrirtækja.