Samningur framlengist til nóvember 2010

25. 06, 2009

    Samninganefndir ASÍ og SA

Samningur framlengist til nóvember 2010

Samninganefnd Flóabandalagsins þ.e. Efling-stéttarfélag, Hlíf og VSFK í Keflavík hafa samþykkt fyrir sitt leyti niðurstöðu samninganefnda ASÍ og SA sem verið hafa til umræðu á síðustu vikum.  Ákveðnar launabreytingar koma til framkvæmda á tímabilinu en markmiðið er að varðveita innihald kjarasamningsins frá síðasta ári. Þetta er gert með kauptaxtahækkunum og framkvæmd launaþróunartryggingar sem mun treysta öryggisnet lægstu launa og takmarka kjaraskerðingar þeirra hópa sem eru á launatöxtum miðað við aðra tekjuhópa. Hvor aðili um sig getur sagt sig frá samkomulaginu sem gert hefur verið innan ákveðinna tímamarka og falla þá samningar og viðkomandi launahækkanir úr gildi. Helstu ákvæði breytinganna fara hér á eftir.

Tvískipting 13.500.- kr. launahækkunar  
Ákvæði um endurskoðun og framlengingu núgildandi kjarasamninga frestast og skal vera lokið þann 27. október  2009.
Taxtabreytingar sem áttu að taka gildi frá 1. mars 2009 er frestað og koma til framkvæmda þannig að
 – 1. Helmingur hækkana almennra kauptaxta koma til framkvæmda 1. júlí sem hækka þá um kr. 6.750.- á mánuði. Helmingur hækkana á ákvæðisvinnutöxtum, kostnaðaliðum og fastákveðnum launabreytingum koma til framkvæmda á sama tíma. Hinn helmingur þessara hækkana kemur til framkvæmda 1. nóvember 2009.
 – 2. 3.5% launaþróunartrygging kemur til framkvæmda 1. nóvember 2009 og viðmiðunartími vegna þessarar tryggingar miðast við tímabilið 1. janúar – 1. nóvember 2009.
 – 3. Hækkun kauptaxta, almennar launahækkanir og aðrar kjarabreytingar sem áttu að taka gildi 1. janúar 2010 færast til 1. júní 2010.

Þessi niðurstaða hefur þegar verið borin upp á formannafundi ASÍ sem samþykkti að vinna málið áfram en það verður afgreitt með tillögu sem verður borin upp í samninganefnd ASÍ og hjá SA til samþykktar eða synjunar. Tilkynna skuli niðurstöðu fyrir 13. júlí nk. 

Samningsaðilar geti sagt sig frá samkomulaginu en báðir aðilar hafa frest til 17. júlí 2009 til að ákveða að framlengja ekki samninginn. Í því tilviki fellur samningurinn úr gildi svo og áformaðar launahækkanir.