Ný Gallup könnun sýnir skýra samstöðu

20. 11, 2009

Ný Gallup könnun sýnir skýra

Samstöðu um áherslu á hækkun lægri launa

Ef það er eitthvað eitt sem stendur upp úr nýrri Gallup könnun um hagi félagsmanna Eflingar, Hlífar og VSFK þá er það órofa samstaða þeirra um að leggja áherslu á hækkun lægri launa í næstu kjarasamningum. Níu af hverjum tíu félagsmönnum eru sammála þessari stefnu og andstaða við hana er hverfandi. Hvorki starf né aldur, kyn eða félagsleg staða virðist skipta marktækt máli í þessu efni. Það er einnig athyglisvert að yfirstandandi kreppuástand hefur lítil áhrif á skoðanir félagsmanna sem staðfesta í hverri könnuninni á fætur annarri þessa almennu stefnu um launajöfnuð. Fjölmargt merkilegt kemur fram í þessari nýju könnun sem sýnir meðal annars áhrif kreppunnar á breytingar í viðhorfi til launa, atvinnuöryggis og það sést hvernig áhyggjur fólks endurspeglast og hvernig það sparar við sig við versnandi launakjör.

Það er sýnilegt að félagsmenn leggja nú aukna áherslu á atvinnuöryggi þegar spurt er um áherslur kjarasamninganna en launin vega langþyngst enda vilja tveir af hverjum þremur að aðaláherslan sé á launin. Á tímabili betri kaupmáttar lögðu félagsmenn áherslu á bæði starfsumhverfi og vinnutíma en mjög lítil áhersla er nú á þessum þáttum.

Flestir leita sér að vinnu innanlands
Mikið hefur verið rætt um að fólk muni í vaxandi mæli leita sér að vinnu erlendis í atvinnuleysinu hér á landi. Það staðfestist ekki í þessari könnun því yfir 70% svarenda eru að leita sér að vinnu hér á landi en einungis um 4,5% hyggjast leita fyrir sér erlendis. Þá stefna um 17% atvinnuleitenda að því að fara í nám. Jákvætt er að þeim mun yngra sem fólkið er því meiri líkur á að það nefni nám sem valkost í stöðunni. Mun fleiri karlar eru atvinnulausir en konur enda fjölmennasti hópurinn í byggingageiranum en fæstir í veitinga og hótelgeira. Stærsti hópurinn á Flóasvæðinu er á Suðurnesjum þar sem fjöldi atvinnulausra er nú ríflega 16% samkvæmt könnuninni.

Um helmingur hóp atvinnulausra látinn afskiptalaus?
Athyglisvert er að skoða hve margir telja sig hafa fengið aðstoð, tilboð um vinnu eða nám en það er um helmingur hópsins sem svarar spurningum um þetta jákvætt. Hinn helmingurinn telur sig ekki hafa fengið neitt af þessu og hlýtur það að vekja upp spurningar hjá þeim sem leiða málaflokkinn hjá yfirvöldum vinnumála. En þeir sem á annað borð telja sig hafa fengið þjónustu hjá Vinnumálastofnun eru flestir ánægðir með þá þjónustu sem þeir fá eða um 80% .
 
Sex af hverjum tíu orðið fyrir kjaraskerðingu
Eins og búast mátti við hafa margir launamenn orðið fyrir ýmiss konar kjaraskerðingum eftir hrun efnahagslífsins. Um fjórir af hverjum tíu telja sig hafa orðið fyrir einhvers konar launa- eða kjaraskerðingum á undanförnum 12 mánuðum vegna samdráttar. Hjá yfir helmingi þeirra sem telja kjör sín hafa verið skert nefna að það hafi verið gert með yfirvinnubanni, en síðan kemur líka til lækkað starfshlutfall, lækkaðir bónusar og síðan hefur nær fimmti hver þeirra sem varð fyrir skerðingu orðið fyrir beinni launalækkun.

Mikið starfsöryggi þrátt fyrir kreppuna
Þrátt fyrir kreppuna telja nærri 70% félagsmanna sig búa við mikið starfsöryggi og aðeins um 12% telja sig búa við lítið öryggi í starfi. Konur telja sig búa við nokkru meira starfsöryggi en karlar sem er í samræmi við aðrar forsendur könnunarinnar. Starfsöryggið er minna á Suðurnesjum en hjá Hlíf og Eflingu. Mesta starfsöryggið er hjá þjónustu-, afgreiðslu- og skrifstofufólki en minnst hjá byggingamönnum.

Hefur fólk áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni?
Um annar hver svarenda í könnuninni eða um 53% hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af fjárhagslegri stöðu sinni en þeir sem hafa frekar litlar, mjög litlar eða engar eru um fjórðungur þátttakenda. Eins og búast má við hafa þeir meiri áhyggjur af stöðu sinni sem tengjast ýmsum störfum í flutningum , framkvæmdum og iðnaðarmannastörfum svo sem tækjamenn og bílstjórar.

Verðbólga, vextir, hækkun lána og lág laun ástæðurnar
Lág laun koma í annað sæti þegar spurt er um það hverjar séu helstu ástæður þess að fólk hefur áhyggjur af stöðu sinni en verðbólgan og vextir eru sýnilega það sem fólk hefur mestar áhyggjur af og síðan hækkun lána sem kemur vart á óvart. Þá eru nefndar til sögunnar lækkun launa, atvinnuleysi og skuldir.

Hefur þú leitað fjárhagslegrar aðstoðar á sl. tólf mánuðum og þá hjá hverjum?
Um fimmti hver aðspurðra hefur leitað fjárhagslegrar aðstoðar en um 80% hafa ekki gert það. Flestir leita aðstoðar hjá viðskiptabanka sínum en síðan er leitað til vina og kunningja og nokkrir leita til Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Stærstu hóparnir sem leita sér aðstoðar eru þeir sem eru án atvinnu eða á uppsagnarfresti svo og aldurshópurinn 25 ára til 44 ára.

Margir taka út séreignarsparnaðinn
Rúmlega fjórir af hverjum tíu hafa tekið út séreignarsparnað sinn þannig að ljóst er að margir eru að nota þetta úrræði til að mæta erfiðri fjárhagsstöðu. Álíka margir hafa ekki gert það og hafa heldur ekki hugsað sér að gera það. En jafnframt er ljóst að nokkuð er ennþá af fólki sem hugsar sér að nýta úrræðið því um 17% hefur hugsað sér að taka út þennan sparnað. Hér má reyndar benda á að margir eiga samkvæmt upplýsingum frá lífeyrissjóðunum inni litlar upphæðir sem fólk sér ekki ástæðu til að geyma í séreignarsparnaði þegar svo illa árar.

Sláandi að fólk dregur úr matarkaupum og heilbrigðisþjónustu
Það kemur ekki á óvart að 7 af hverjum 10 hafa dregið úr ferðalögum og heldur færri hafa dregið úr útgjöldum til tómstunda og húsgagnakaupa. Það sem er uggvænlegt er að sjá að fólk dregur úr kostnaði við heilbrigðisþjónustu og það sparar við sig í mat. Þá er ljóst að mjög margir eru að huga að eldsneytissparnaði því um helmingur svarenda svarar þeirri spurningu jákvætt.
 
Margt fleira athyglisvert í könnuninni
Það er margt fleira sem er athyglisvert í þessari könnun, svo sem skoðun á launum félagsmanna, kynbundnum launamun, viðhorfi til stéttarfélaganna og atvinnurekenda og margt fleira mætti telja. Fyrir áhugasama er rétt að benda á að könnunina má skoða í heild sinni hér.