Mikill hiti í sjómönnum

 

Sigla sjómenn í land vegna afnáms sjómannaafsláttar?

Mikill hiti í sjómönnum

– segir Þórður Ólafsson

Það er alveg ljóst að sjómennirnir okkar eru langt frá því að vera sáttir við þau áform stjórnvalda að afnema sjómannaafsláttinn. Þetta er hluti af kjarasamningi þeirra og það myndi engin stétt í landinu átakalaust láta afnema réttindi sem þeir hafa búið við með kjarasamningum um áratugaskeið, segir Þórður Ólafsson í Þorlákshöfn og stjórnarmaður í Eflingu. Þórður minnir á að við gerð stöðugleikasáttmálans í ár hafi ASÍ fengið fyrirheit um að ekki yrði gripið til lagasetninga eða annarra aðgerða stjórnvalda sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga. Því sé um gróft brot á þessum fyrirheitum stjórnvalda að ræða gagnvart þessum hópi launamanna ef þessi áform komi til framkvæmda, segir hann.
Þórður þekkir vel til sjómanna því hann starfar meðal þeirra í löndunargengi í Þorlákshöfn og á  dagleg samskipti við þá sjómenn sem nú eru félagsmenn í Eflingu. Já, það er vægast sagt þungt hljóð í mönnum og ég yrði ekki hissa þó þeir létu verða af aðgerðum um áramótin miðað við það sem ég heyri á bryggjunni, segir Þórður.
Það er líka alveg ljóst að sjómenn og útgerðarmenn geta sameinast í þessari kröfu gegn afnámi afsláttarins og miðað við umræðuna finnst mér það líklegt, segir hann að lokum.