Skattalögin árið 2010

21. 01, 2010

Skattalögin árið 2010

Hefur þú kynnt þér breytingarnar?

Alþingi samþykkti í lok árs 2009 ýmsar breytingar á skattalögum sem lið í því að afla ríkinu frekari tekna. Megin breytingin lýtur að því að tekin hefur verið upp þrepaskipt skattlagning á launatekjur einstaklinga sem tók gildi í staðgreiðslu frá 1. janúar 2010 og kemur síðan til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda 2011 vegna tekna á árinu 2010. Hér á eftir er gerð grein fyrir meginatriðum þessara breytinga sem Karl Ó. Karlsson, lögmaður Eflingar hefur tekið saman fyrir félagið.

Með lagabreytingunni er tekin upp þriggja þrepa skattlagning:

I.      Fyrsta þrep tekur til mánaðarlauna allt að 200.000 kr., eða sem jafngildir 
        árslaunum undir 2,4 millj. kr. Staðgreiðsluhlutfall í I. þrepi er 37,22%      
        (24,1 tekjuskattur + 13,12% meðalútsvar)
II.     Í annað þrep falla mánaðarlaun frá 201.000 kr. – 650.000 kr., sem jafngilda 
        árslaunum á bilinu frá 2,4 millj. kr. – 7,8 millj. kr. Staðgreiðsluhlutfall í II. þrepi er 
        40,12% (27% tekjuskattur + 13,12% meðalútsvar).
III.   Þriðja þrep tekur til mánaðarlauna yfir 651.000 kr., sem jafngildir árslaunum yfir 
        7,8 millj. kr. Staðgreiðsluhlutfall í III. þrepi er 46,12% (33% tekjuskattur + 
        13,12% meðalútsvar).

Til þess að átta sig betur á því hvernig þessi þrepaskipting verkar í framkvæmd má taka tvö dæmi. Í dæmi 1 er einstaklingur með 213.120 kr. í staðgreiðsluskyld mánaðarlaun sem skattleggjast samkvæmt framansögðu í I. og II. þrepi. Í dæmi 2 er einstaklingur með 690.000 kr. í staðgreiðsluskyld mánaðarlaun sem skattleggjast þá í I., II. og III. þrepi. Með orðunum staðgreiðsluskyld laun er átt við þau laun sem staðgreiðsla er reiknuð af, en þá er búið að draga frá iðgjald í lífeyrissjóð:

Sérstök athygli er vakin á því að lögum samkvæmt hvílir sú ábyrgð á launamanni sem starfar hjá fleiri en einum launagreiðanda á sama launatímabili að upplýsa launagreiðendur um rétt innheimtuhlutfall í staðgreiðslu.

Ef í ljós kemur við álagningu að afdregin staðgreiðsla var of lág þá fær launamaður ekki bara óþægilegan bakreikning heldur þarf launamaður einnig að sæta því að lagt verði á hann 2,5% álagá það sem vangreitt er.

Ef við skoðum þetta nánar og tökum mið af dæmi 1 þá er í sjálfu sér ekkert vandamál ef allar tekjurnar 213.120 kr. eru frá sama launagreiðanda. Ef launamaður vill staðreyna hvort launagreiðandinn sé að taka rétta staðgreiðslu af honum þá er með einföldum hætti hægt að nýta sér reiknivél sem finna má á vef Ríkisskattstjóra (www.rsk.is). Ef tekjurnar í dæmi 1 koma hins vegar frá 2 launagreiðendum; tekjur frá launagreiðanda A eru 200.000 kr. en tekjur frá launagreiðanda B eru 13.120 kr., þá ber launamanni skylda til þess að upplýsa launagreiðanda B að hann eigi að taka 40,12% staðgreiðslu af þeim launum.

Það er því mikilvægt að allir félagsmenn séu vel á verði og skoði vel launaseðla sína við hverja útborgun. Ástæða er til að hvetja félagsmenn Eflingar einnig til þess að hafa samband við ríkisskattstjóra ef þeir vilja fá frekari skýringar eða upplýsingar um það hvernig dæmið lítur raunverulega út í þeirra tilviki.