Efling brýnir stjórnvöld


Efling brýnir stjórnvöld

Rjúfið vítahringinn

Fjölmennur fundur Eflingar-stéttarfélags í gærkvöldi krafðist þess af stjórnvöldum að rjúfa nú þegar þann vítahring sem kominn er upp í atvinnumálum í landinu og sameinast um að snúa vörn í sókn og hverfa frá stöðnun til uppbyggingar. Sérstökum hvatningarorðum er beint að ráðherrum ríkisstjórnarinnar varðandi framkvæmdir í orku- virkjana-, og vegamálum. Ályktunin fer hér á eftir:

Hátt á annan tug þúsunda Íslendinga eru nú atvinnulausir og stöðugt fjölgar í þeim hópi sem býr við langtímaatvinnuleysi. Mesta atvinnuleysið er á höfuðborgarsvæðinu og nærliggjandi byggðum. Það er krafa Eflingar-stéttarfélags að stjórnvöld, ríkisstjórn,  sveitarstjórnir og allir aðilar í landinu sem hafa áhrif á framkvæmdir sameinist um að rjúfa þann vítahring sem ríkir í atvinnumálunum. Frumforsenda þess að ná hjólum atvinnulífsins af stað er að vextir verði lækkaðir svo um munar.

Efling-stéttarfélag hvetur stjórnmálamenn til að setja niður deilur en beina allri þeirri orku sem býr í íslensku samfélagi að endurreisn atvinnulífsins. Það verður engin endurreisn ef ráðherrar halda áfram að deila um sjálfsagðar framkvæmdir  í orku og virkjanamálum. Ríkisstjórin verður að senda fólkinu í landinu skýr skilaboð um það hvernig hún hyggst standa að endurreisn atvinnulífsins. Mikilvægt er einnig að ráðherra vegamála taki meira en hænuskref í vegaramkvæmdum á fjölmennasta svæði landsins suðvestanlands þar sem mikilla og brýnna vegabóta er þörf. 

Efling stéttarfélag gerir þá kröfu á hendur stjórnvalda, ríkisstjórnar, sveitarfélaga, atvinnlífsins og þeirra sem fara með fjárveitingar og atvinnumál að snúa nú vörn í sókn, frá stöðnun til uppbyggingar.