Hefur RSK ekki áhuga á skattsvikum

Hefur RSK ekki áhuga á skattsvikum?

Efling-stéttarfélag fær iðulega inná borð til sín upplýsingar um vinnustaði þar sem launaseðlar eru ekki afhentir við útborgun, ekki er greitt af nokkrum manni í lífeyrissjóði eða félagsgjald og starfsmenn eru kallaðir verktakar. Oft er um að ræða veitingastaði þar sem ungt fólk er við störf og eru nokkur dæmi um slíkt á liðnum mánuðum. Haft hefur verið samband við ríkisskattstjóra í þessum tilvikum en þaðan koma engin viðbrögð og fyrirtækið heldur áfram óbreyttum rekstri.

Dæmi eru um veitingastaði þar sem mikið vantar upp á að rétt sé staðið að launamálum ungs fólks. Þá hringja stundum foreldrar unglinga í okkur og segja að á þessum veitingastaðnum eða hinum séu ekki afhentir launaseðlar og þegar gengið er eftir því er svarið að krakkarnir þeirra sem vinna t.d. í uppvaski séu verktakar.
Er þá iðulega haft samband við RSK án nokkurs árangurs eða nokkurra viðbragða frá þeirri stofnun.

Fyrirspurnum ekki svarað

Fyrirspurnum sem er beint til stofnunarinnar er jafnvel ekki svarað. Kemur fyrir að forsvarsmenn fyrirtækis segi að starfsmenn þeirra séu allir verktakar og viðurkenndir sem slíkir hjá skattayfirvöldum. Þegar fyrirspurn er send á RSK frá félaginu er henni ekki svarað.
Þegar upplýsingar eru sendar á sömu stofnun um heilan vinnustað þar sem ekki eru greitt af nokkrum manni nokkur gjöld er ekki einu sinni kvittað fyrir móttöku og staðurinn heldur áfram starfsemi sinni eins og ekkert hafi í skorist.

Fjölmörg erindi í þessa átt berast skrifstofu Eflingar. Starfsmenn fá ekki greidd laun og í ljós kemur að ekki er greitt af nokkrum starfsmanni fyrirtækisins. Þá skyldi maður ætla að RSK hefði áhuga á slíkri starfsemi og sendi menn á vettvang samdægurs. Eftir hverju er að bíða?
Efling hefur óskað eftir samstarfi við RSK í þessum efnum og RSK ekki tekið illa í það og á fundum jafnvel verið ákveðið að hafa samband til að setja niður verkefnið eða verkferla. Þegar Efling síðan hefur samband og það ítrekað er engu svarað.