Mikilvægt að allir taki þátt

13. 09, 2010

    Vinnustaðaskírteinin eru stórt skref
Mikilvægt að allir taki þátt
 – segir Tryggvi Marteinsson

Hér má enginn skerast úr leik, hvorki Vinnumálastofnun, innheimtuaðilar né skatturinn þegar augljós skattsvik blasa við

Ég tel mjög mikilvægt skref stigið til að tryggja stöðu launafólks á vinnumarkaðnum með samkomulaginu um vinnustaðaskírteinin. Þarna höfum við fengið tæki í hendurnar sem getur gagnast okkur mjög vel ef rétt er á haldið, segir Tryggvi Marteinsson hjá Eflingu sem í mörg ár hefur gegnt starfi vinnustaðaeftirlits Eflingar og annarra stéttarfélaga á Reykjavíkursvæðinu. Mitt mat er það að nú þurfum við að einbeita okkur að veitingageiranum, en aðalatriðið er að allir aðilar sem hlut eigi að máli sameinist um að láta þetta verkefni takast. Hér má enginn skerast úr leik, hvorki Vinnumálastofnun, innheimtuaðilar eða skatturinn þegar augljós skattsvik blasa við, segir hann.

Tryggvi segir að stéttarfélögin hafi á undanförnum árum náð góðum árangri með heimsóknum á vinnustöðum þar sem bæði stéttarfélögin og lengi vel Vinnumálastofnun tóku þátt í eftirlitinu. Eftir hrun byggingageirans hefur hópurinn snúið sér meira að öðrum verkefnum og þetta þýðir ekki að við látum byggingastaðina eftirlitslausa en við sjáum að það eru mjög stór vandamál í gangi í veitingageiranum og á þeim þarf að taka, segir hann.  Hann bætir við að stóra stóra spurningin sé hvort félögin fái opinberar stofnanir eins og skattinn með þegar   augljós skattsvik blasa við.
Það er mjög mikilvægt þegar við komum á vinnustað þar sem svört vinna er í gangi eða eitthvað annað er að þá getum við þegar í stað látið þessar upplýsingar til Vinnumálastofnunar, skattsins, lögreglu ef þörf er innheimtuaðila sem í flestum tilvikum eru lífeyrissjóðirnir til að innheimta iðgjöldin, segir Tryggvi að lokum.
Sjá nánar á www.skirteini.is