Gallup könnun 2010

18. 10, 2010

g_konnun   Ný Gallup könnun Eflingar og Flóafélaganna

Um helmingur félagsmanna

hefur miklar fjárhagsáhyggjur

Félagsmenn vilja áfram áherslu á hækkun lægri launa

Meira en helmingur svarenda í nýrri Gallup könnun Eflingar og Flóafélaganna hefur áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni en um fimmtungur þátttakenda hefur leitað aðstoðar vegna fjárhagslegra mála og þar af hefur um einn af hverjum tíu leitað eftir aðstoð til banka og fjármálastofana.  Könnunin nú sýnir, líkt og fyrir ári, að enn dregur fólk úr útgjöldum vegna verri fjárhagsstöðu og hækkandi verðs, svo sem til ferðalaga og tómstunda.  Það vekur áhyggjur að fjórði hver hefur dregið úr útgjöldum til heilbrigðisþjónustu og er það heldur hærra hlutfall en fyrir ári.  Það kemur ekki á óvart að óánægja félagsmanna eykst með launin og krafa um hærri laun er áberandi efst á blaði þátttakenda.  Það er fátt sem er jákvætt í þessari könnun nema helst það að fólk er sátt við þjónustu stéttarfélaganna.  Einnig vekur alltaf jafn mikla athygli að mikill meirihluti félagsmanna leggur enn og aftur áherslu á hækkun lægstu launa jafnvel þó það þýði minni almenna hækkun launa.

Einungis um helmingur félagsmanna Eflingar býr í eigin húsnæði sem er afar athyglisvert  í ljósi umræðunnar um skuldir heimilanna undanfarnar vikur. 

Þegar spurt er um áherslur í komandi kjarasamningum leggja félagsmenn langmesta áherslu á launin.  Það vekur alltaf jafnmikla athygli í könnunum Eflingar og félaganna hve gríðarleg samstaða er um hækkun lægstu launa. Níu af hverjum tíu eru mjög sammála eða frekar sammála þessari stefnu og yfirgnæfandi meirihluti vill einnig umframhækkun lægstu launa þó að það þýði minni hækkun launa almennt. Þá kemur fram að ríflega helmingur þátttakenda er ósáttur við laun sín og hefur sá hópur farið stækkandi undanfarin misseri.

Heildarlaun bæði karla og kvenna hafa lækkað frá síðasta ári en heildarlaun karla eru nú 336 þúsund krónur og heildarlaun kvenna 249 þúsund krónur.  Þegar við skoðum meðaltal heildarlauna eftir störfum þá eru leiðbeinendur með lægstu heildarlaunin eða 216 þúsund krónur að meðaltali.  Hæstu heildarlaun eftir atvinnugreinum eru hins vegar í byggingageiranum eða 352 þúsund krónur að meðaltali.

Litlu færri hafa orðið fyrir skerðingu á launum eða starfskjörum á undanförnum 12 mánuðum en fyrir ári.  Fyrir utan beinar launaskerðingar, kemur til yfirvinnubann, aukið álag án launagreiðslna, skert starfshlutfall eða að aðrar tekjutengdar greiðslur skerðast. Meðal stórra hópa sem orðið hafa fyrir skerðingum eru bílstjórar og tækjamenn.

Síðan er áberandi í könnuninni að leiðbeinendur  á leikskólunum hafa greinilega orðið hart úti á þessu tímabili því þeir hafa orðið fyrir launaskerðingum, auknu álagi og hafa meiri fjárhagsáhyggjur af stöðu sinni en aðrir hópar.  Leiðbeinendur eru reyndar ekki einir um að upplifa aukið álag í starfi því sama á við um fleiri umönnunarstéttir þar sem hátt hlutfall telur að álag hafi aukist mikið í starfi.

Fjórði hver svarenda hafði verið frá vinnu vegna veikinda á síðustu þremur mánuðum og mátti sjá greinileg tengsl milli álags og veikindafjarvista.  Þannig höfðu mun fleiri verið veikir í hópi þeirra sem höfðu fundið fyrir auknu álagi og eins í hópi þeirra sem báru lítið traust til atvinnurekanda síns.

Um helmingur félagsmanna hefur áhyggjur af fjárhagsstöðu sinni en athygli vekur að þriðjungur þeirra sem hafa áhyggjur af fjárhag sínum nefna það sem helstu ástæðu að launin dugi ekki. Næst stærsti hópurinn nefnir verðbólgu, vexti og hækkandi verðlag og er það álíka stór hópur og nefnir skuldir og hækkun lána samanlagt. 

Þá kemur ekki á óvart að sá hópur sem hefur verið atvinnulaus í meira en ár er mun stærra hlutfall af þeim sem svöruðu nú en í fyrra. Þá er athyglisvert að mjög fáir leita sér að atvinnu erlendis og langflestir eru að leita sér vinnu hér á landi.

Vinnutími hefur heldur verið að styttast á undanförnum misserum og þá frekar hjá körlum en konum sem hefur leitt til þess að sá munur sem var á vinnutíma karla og kvenna hefur minnkað talsvert.

Það hlýtur að vekja nokkurn ugg í brjósti þeirra sem skoða könnunina að annað árið í röð er fólk að spara við sig bæði í tómstundum, ferðalögum og síðast en ekki síst er fólk að spara við sig í útgjöldum til heilbrigðismála svo sem lyfjakaupa.

Félagsmenn voru almennt mjög sáttir þegar spurt var um viðhorf til þjónustu stéttarfélagsins. Um tveir af hverjum þremur eru ánægðir með þjónustu Eflingar og um 60% sáttir við félagið. 

Hægt er að nálgast könnunina í heild sinni hér