Dagsbrúnarfyrirlesturinn

10. 11, 2010

unnid_i_fiski   Dagsbrúnarfyrirlesturinn: Verkalýðsstjórnmál og þjóðernisstefna

Fimmtudaginn 11. nóv. nk. mun Ragnheiður Kristjánsdóttir, aðjunkt í sagnfræði við HÍ, flytja hinn árlega Dagsbrúnarfyrirlestur sem að þessu sinni ber yfirskriftina; Fullgildir borgarar? – Um nýtt fólk í stjórnmálaumræðunni fram að lýðveldisstofnun. Fyrirlesturinn byggir á bók hennar og doktorsritgerð, Nýtt fólk. Þjóðerni og íslensk verkalýðsstjórnmál 1901-1944.

Eitt helsta verkefni alþjóðlegrar verkalýðshreyfingar var að berjast fyrir því að skjólstæðingar hennar teldust fullgildir borgarar. Í fyrirlestrinum verða færð rök fyrir því að á Íslandi hafi þessi þáttur verkalýðsbaráttunnar ekki síst falist í tilraunum til að endurmóta íslenska þjóðernisstefnu. Sýnt verður fram á að verkalýðshreyfingin hafi allt frá upphafi ráðist gegn þeim þáttum hennar sem samrýmdust illa sósíalískri stjórnmálaorðræðu, reynt að endursegja þjóðarsöguna, skilgreina upp á nýtt og á sínum forsendum grunnþætti íslenskrar þjóðernissjálfsmyndar. Jafnframt verða borin saman áhrif þjóðernisstefnu á stjórnmálaarma verkalýðshreyfingarinnar, Alþýðuflokkinn annars vegar og Kommúnistaflokkinn (og síðar Sóísalistaflokkinn) hins vegar.

Fyrirlesturinn verður fluttur í ReykjavíkurAkademíunni fimmtudaginn 11. nóv kl. 12:05 á 4. hæð. Nánari upplýsingar má sjá á vef ReykjavíkurAkademíunnar.