Fá greitt langt undir taxta

25. 11, 2010

undir_taxta           Laun að lækka í veitingahúsum

Fá greitt langt undir taxta

Starfsfólk á veitingahúsum leitar í auknum mæli til Eflingar vegna brota á kjarasamningum. Algengt er að greidd séu jafnaðarlaun sem ekki eru til í kjarasamningum og dæmi um að laun séu 60% lægri en þau eiga að vera. Þeir starfsmenn sem vinna með kjaramálin hjá Eflingu hafa að undanförnu fengið ýmis mál til meðferðar þar sem um of lág laun er að ræða. Það sem varð kveikjan að fréttum nú var tölvupóstur fyrrverandi starfsmanna Café Paris þar sem þeir lýstu bágum launakjörum og óánægju með fyrirtækið. Tryggvi Marteinsson hjá Eflingu segir að kvartanir hafi aukist á síðustu mánuðum undan því að ekki sé farið að kjarasamningum.

Það er mikið um það og meira en áður. Okkur finnst áberandi hvað þessi svokölluðu jafnaðarlaun hafa lækkað. Þau eru að verða þar alveg ráðandi og þau eru ekki til í kjarasamningum.

Tryggvi segir jafnaðarlaun vera laun þar sem borgað er nokkrum krónum hærra en dagvinnulaun en starfsfólkið vinni hins vegar á kvöldin og á nóttunni og eigi þá að vera á yfirvinnu eða með hærra vaktaálag en þeir fái greitt. Það er kjarasamningsbrot ef fólk fær greidd jafnaðarlaun sem séu lægri en kjarasamningar og sú sé raunin í mörgum tilvikum.

Ég hef séð dæmi um það að fólk sem á að fá 1.700,- krónur á tímann sé að fá 1.000,- krónur. Þetta heita jafnaðarlaun hjá viðkomandi atvinnurekendum. Það er til dagvinna og það er til yfirvinna og vaktavinna, en það eru borguð jafnaðarlaun sem rétt skríða yfir dagvinnuna. Þetta er alltof algengt, segir hann. Því miður eru þessi brot á kjarasamningum ekki einskorðuð við fáa veitingastaði. Þetta er mjög útbreitt í þessari atvinnugrein, segir hann.