Hvernig ganga kjarasamningar fyrir sig?

26. 11, 2010

hvernig_ganga_kjarasamningar_fyrir_sig      Efling hefur haldið fjölda funda með trúnaðarmönnum sínum undanfarið til að ræða samningamálin. Hér er trúnaðarráð Eflingar á fundi nýlega…

Næsta fréttablað Eflingar kemur út innan skamms og er það fullt af skemmtilegu efni. Á næstu dögum munu birtast fréttir úr blaðinu á vefsíðunni. Hér kemur frétt um gerð kjarasamninga.

Hvernig ganga kjarasamningar fyrir sig?

Nú um þessi mánaðamót eru allir kjarasamningar Eflingar-stéttar-félags og aðildarfélaga ASÍ og annarra heildarsamtaka launamanna lausir. Það er fremur óvenjulegt að allur vinnumarkaðurinn sé með lausa kjarasamninga á sama tíma. Kjarasamningar markast af lögum um stéttarfélög og vinnudeilur sem eiga uppruna sinn allt til ársins 1938 en veigamiklar breytingar voru gerðar á lögunum 1996 þegar ákvæði um samninganefndir, viðræðuáætlanir og ýmis fleiri ákvæði voru tekin inn í lögin. En hvernig ganga kjarasamningar venjulega fyrir sig?

Atvinnurekendum og stéttarfélögum ber að gera viðræðuáætlanir, sem er áætlun um skipulag viðræðna um endurnýjun kjarasamnings. Áætlanir skulu vera tilbúnar í síðasta lagi 10 vikum áður en kjarasamningur rennur út. Í Eflingu-stéttarfélagi hefur félagið gert kjarasamninga á almennum markaði þ.e. við Samtök atvinnulífsins með Flóafélögunum, Hlíf og VSFK.Viðræðuáætlun var gerð á almenna markaðnum 22. september sl. en þar er gert ráð fyrir því að aðilar lýsi markmiðum varðandi þróun verðlags, gengi krónunnar, kaupmáttar og atvinnustigs svo og samningstíma og samningsforsendur. Í nóvember er gert ráð fyrir að aðilar kynni óskir um breytingar á ákvæðum kjarasamninga, öðrum en þeim sem lúta að kaupliðum en umræður um kaupliði hefjist í nóvember. Ljóst er að miðað við viðræðuáætlunina, er framvinda undirbúnings kjarasamninga nokkuð á eftir áætlun. Ekki hafa átt sér stað formlegar viðræður við SA um meginmarkmið og kynning á óskum um kaupliði. Lögum samkvæmt fara samninganefnd eða forsvarsmaður nefndarinnar með fyrirsvar í kjarasamningum og hefur umboð til að setja fram tillögu að samningi, taka þátt í samningaviðræðum og undirrita kjarasamning sem síðan gengur til félagsmanna eftir ákveðnum reglum. Stéttarfélögin hafa nú flest gengið frá skipun samninganefnda og Efling-stéttarfélag gekk frá skipun samninganefndar í þessum mánuði. Í síðustu kjarasamningum hafa Flóafélögin, Efling, Hlíf og VSFK myndað stóra samninganefnd og unnið saman á fjölmörgum sviðum kjaramála. Svo verður einnig nú í þessum kjarasamningum.

Ljóst er að sú pólitíska óvissa sem ríkir í landinu, gerð fjárlaga og ýmsir óvissuþættir sem tengjast stefnumörkum ríkisstjórnar í atvinnu-, kjara-, og félagsmálum er veigamesta ástæða þess hve hægt kjaraviðræður fara af stað. Þá er erfitt fyrir aðila vinnumarkaðarins að setja af stað áætlanir um samningstíma og samningsmarkmið meðan forsendur í ríkisfjármálum eru óvissar.

Efling-stéttarfélag hefur gengið frá öðrum viðræðuáætlunum s.s. við Samband sveitarfélaga, Launanefnd Samtaka fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu, Reykjavíkurborg og veitt Sjómannasambandinu umboð til að gera viðræðuáætlun og kjara-samning fyrir hönd sjómanna. Þá hefur Efling einnig veitt Starfsgreinasambandinu umboð til að gera samning við ríkið.

En almennt hefur Efling-stéttarfélag ekki veitt landssamböndum umboð til gerðar kjarasamninga heldur fer félagið að mestu leyti með eigin forráð á samningamálunum.