Skötuselurinn ljótastur

30. 11, 2010

skotuselur                 -Löndunargengi í Þorlákshöfn

Skötuselurinn ljótastur

– segir Jón Rúnar Gíslason

Það er enginn spurning hvaða fiskur er ljótastur og mest ógnandi. Það er skötuselurinn, segir Jón Rúnar Gíslason í löndunargenginu við höfnina í Þorlákshöfn. Þessi orð hans féllu í spjalli okkar við strákana í genginu sem við rákumst á í Þorlákshöfn þar sem þeir voru að ljúka við löndun úr fiskibát á aðalbryggjunni.

Jón Rúnar Gíslason féllst á að spjalla við okkur og sagði að löndunargengið væri skipað fjórum vöskum körlum sem hefðu lengi starfað saman. Vinnutíminn er breytilegur og vinnan hefst oft klukkan þrjú að nóttu og stendur fram eftir degi. En í seinni tíð hefur veiðiflotinn og bátarnir minnkað og það hefur leitt til þess að vinna hjá okkur hefur verið rysjótt undanfarið og launin lækkað. En til þess að ná endum saman, vinnum við í fiski hjá Kuldabola (Ísfélaginu) og smíðum bretti, keyrum lyftara og vinnum önnur störf sem til falla, segir hann.

Um aflann sem þeir landi segir Jón Rúnar að hann sé fjölbreyttur og að mestu samansettur af karfa, rækju, humri og lítilræði af öðrum tegundum.

Þegar Jón Rúnar er spurður hver sé ljótasti fiskur sem hann hafi landað, segir hann að það sé engin spurning. Það er skötuselurinn.

Aðspurður segist Jón Rúnar sakna Herjólfs og umferð skipa og annarra flutningatækja hafi minnkað mikið og dregið hafi umtalsvert úr mannlífi í plássinu þegar hann hætti að sigla hingað, segir hann. Hann segir að sú hætta blasi við að Þorlákshöfn geti orðið hálfgerður svefnbær. En eins og útlitið er með Landeyjarhöfn og vandræðaganginn með að halda henni opinni þá kæmi mér ekki á óvart að Herjólfur hefji aftur siglingar til Þorlákshafnar.