Styrkur fyrir sálina

11. 11, 2010

fundur_leik2   Fræðslufundur faghóps leikskólaliða

Styrkur fyrir sálina!

Menntun og reynsla leikakólaliða verður að meta til launa

Við megum ekki bregðast sjálfum okkur með því að virða ekki eigin þarfir, drauma og langanir.  Hvert og eitt okkar þurfum við að rækta það sem við gerum best.  Við þurfum að trúa á okkur sjálf þó að það þýði líka að við förum út fyrir þægindahringinn. Þannig eru við besti styrkur fyrir sálina, sagði Sigríður Hulda Jónsdóttir, forstöðumaður stúdentaþjónustu HR á fundi með leikskólaliðum í vikunni.  Vel var mætt á fundi faghóps leikskólaliðanna 9. nóvember en þar fór Harpa Ólafsdóttir forstöðumaður kjaramálasviðs Eflingar  einnig yfir kjarasamningana framundan.  Leikskólaliðarnir komu fram með ýmsar áherslur sem nýtast munu í kjarasamningsviðræðunum.

Sigríður Hulda Jónsdóttir fór yfir það hvernig við stýrum okkar lífi og hvernig við nærum okkur.  Við höfum alltaf eitthvert val um að stýra okkar lífi og hvernig við tökumst á við lífið.  Þurfum að hafa í huga að þegar ein hurð lokast þá opnast önnur.  Þá sagði Sigríður mikilvægt að hafa sterka sjálfsvirðingu og gott sjálfsöryggi.  Það birtist í félagsskapnum, lífsvenjum, verkefnum og tómstundum.  Við megum ekki bregðast sjálfum okkur með því að virða ekki eigin þarfir, drauma og langanir.  Þurfum að rækta það sem við erum góð í, hvert og eitt.  Við þurfum að trúa á okkur sjálf þó að það þýði líka að við förum út fyrir þægindahringinn.   Mikilvægt að við séum góður ferðafélagi, ekki bara gagnvart okkar bestu vinum, heldur líka gagnvart okkur sjálfum.  En við þurfum að geta sett okkur í spor annarra og geta fundið jafnvægið.  Forgangsröðun er mikilvæg í nútímaþjóðfélagi og hlúa vel að því takmarki sem við setjum okkur.

Í framsögu Hörpu Ólafsdóttur kom fram að bæði starfsmönnum og börnum leikskóla hafði fjölgað verulega á undanförnum árum.  Þá er athyglisvert að hverjum starfsmanni á einkareknum leikskólum er ætlað að sinna fleiri börnum  eða 6,33 á meðan þau eru rétt innan við 5 hjá sveitarfélögunum.  Á sama tíma og leikskólakennurum og öðrum starfsmönnum með uppeldismenntun hefur farið fjölgandi þá hefur félagsmönnum Eflingar sem starfa á leikskólum fækkað úr 1200 í 1100 manns frá síðasta ári.  Fram kom að lægstu laun höfðu hækkað mun meira en laun leikskólaliða og kom það skýrt fram hjá fundargestum að þeim fannst alltof lítill munur nú á þeirra launum og launum þeirra lægst launuðu.  Menntun og reynsla leikakólaliða yrði að meta til launa og því væri brýnt að taka tillit til þess í komandi samningum.  Það var þó einróma niðurstaða fundarins að mikilvægast væri að ná fram auknum kaupmætti.