Láttu gott af þér leiða

20. 12, 2010

lattu_gott_af_ther_leida      Samstarfsverkefni Eflingar og Fjölsmiðjunnar

Láttu gott af þér leiða

– Rætt við Atla Lýðsson, fræðslustjóra Eflingar

Efling og Fjölsmiðjan hafa ýtt á flot nýju og mjög spennandi verkefni. Markmið þess er að virkja langtímaatvinnulausa karlmenn og efla sjálfstraust og auka virkni þeira. Hópurinn sem um ræðir eru langtímaatvinnulausir karlmenn 50 ára og eldri sem hafa langan starfsaldur í störfum tengdum iðnaði og mannvirkjagerð. Þessir karlar hafa ekki fundið sig nægjanlega vel í þeim verkefnum sem stéttarfélögin, símenntunarstöðvarnar og fleiri hafa verið að bjóða upp á síðustu ár. Nú er verkefnið að bæta úr því.

Á fjölmörgum fundum sem hafa verið haldnir fyrir atvinnuleitendur hjá Eflingu hefur það komið fram hjá þessum hópi að þessir menn eru oft á tíðum mjög einangraðir og vantar tengslanet, áhugamál og tilgang, segir Atli Lýðsson sem unnið hefur að málinu fyrir hönd Eflingar. Markmiðið er, að í gegn um sjálfboðaliðastarf, og það að láta gott af sér leiða með því að miðla af reynslu sinni og verkkunnáttu og efla sjálfstraustið, sjóndeildarhringurinn víkki og þeir sjái nýjar leiðir til að bæta stöðu sína og verða virkari í atvinnuleitinni, segir hann.

Verkefnið er þannig sett upp að þátttakendur koma á hverjum morgni kl. 09.00 í Fjölsmiðjuna í Kópavogi. Þar tekur við klukkutíma fundur þar sem verkefnastjóri aðstoðar hópinn. Efni fundanna verður að mestu leyti í höndum þátttakenda sjálfra, hugsunin er að þeir komi sér saman um áhugaverð efni og þeir ásamt verkefnastjóra annað hvort afli sér þekkingar sjálfir og miðli síðan til hinna og/eða fái til sín leiðbeinendur og gesti til að vera með innlegg og umræður. Mikilvægur hluti fundanna er einnig að skipuleggja sjálfboðaliðastarf þeirra fyrir Fjölsmiðjuna og síðan umræður um hvaðeina sem upp kemur í dagsins önn.

Að þessum morgunfundi loknum tekur við tveggja klukkustunda sjálfboðaliðastarf með skjólstæðingum Fjölsmiðjunnar eða vinna við hver þau verkefni sem þátttakendur samþykkja að taka að sér fyrir starfsemi Fjölsmiðjunnar. Klukkan 12.00 er síðan heitur hádegismatur fyrir hópinn í mötuneyti Fjölsmiðjunnar og þar með lýkur starfinu þann daginn. Þessi nálgun sem byggir mikið á frumkvæði þátttakenda og að þeir verði virkir gerendur í sínu ferli til aukinnar virkni er mikilvægt og kemur til með að efla frumkvæði og sjálfstraust þátttakenda til muna ef vel tekst til.

Sjálfboðaliðastarfið gefur mikilvægt tækifæri til að þátttakendur geri sér grein fyrir að kunnátta þeirra og þekking sé mikilvæg og að þörf sé fyrir hana í samfélaginu. Að lokum er síðan rétt að nefna að regluleg mæting, uppbyggilegar umræður og fræðsla ásamt gefandi sjáfboðaliðastarfi er uppskrift sem vonandi á eftir að færa þeim sem þarna taka þátt þrótt og sjálfstraust til að takast á við atvinnuleitina af nýjum krafti ásamt því að starf sem þetta hlýtur að vera gott að fá á ferilskránna.
Allir þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu endilega hafið samband við Elínu Kjartansdóttur eða Atla Lýðsson á skrifstofu Eflingar í síma 510-7500.