Um orð og athafnir

Um orð og athafnir

Hér birtist leiðarinn sem er í nýjasta fréttablaði Eflingar.

Félagsmálaráðherra, Guðbjartur Hannesson, hefur lagt á það ríka áherslu í ræðum sínum undanfarna daga að launin í landinu séu allt of lág. Þau þurfi að hækka. Hann hefur sagt að leiðin til að útrýma fátæktinni sé að hækka launin og hækka framfærsluviðmið. Undir þetta hafa aðrir ráðherrar ríkisstjórnarinnar tekið. Um þetta geta allir verið sammála. En hvað stendur í veginum? Fyrst ríkisstjórnin er þeirrar skoðunar að launahækkanir og hækkanir bóta dugi til að glíma við fátæktina, þá hlýtur þessi sama ríkisstjórn og félagsmálaráðherrann að beita sér fyrir aukinni atvinnu og hærri launum.

En hér stendur einmitt hnífurinn í kúnni. Vinstri höndin virðist ekki vita hvað sú hægri er að gera. Meðan félagsmálaráðherrann lýsir því yfir að hækka beri launin, tekur fjármálaráðherrann ákvörðun um það í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að engar launahækkanir verði hjá opinberum starfsmönnum á árinu 2011. Á sama tíma tekur heilbrigðisráðherrann ákvörðun um að skera niður störf um allt land þannig að starfsfólk á heilbrigðisstofnunum hefur lagst í fjöldamótmæli gegn ráðamönnum. Fjármálaráðherra gengur svo út frá áætlunum um að laun á almennum vinnumarkaði hækki að jafnaði um 5% á árinu 2011. Er einhver heil brú í þessu???

Á sama tíma og launafrysting á að vera í öllum opinberum störfum, halda ríkisstofnanir eins og Landsspítalinn áfram að segja upp fólki og skerða kjör starfsmanna. Þar er örugglega löngu komið að þolmörkum. Efling-stéttarfélag hefur bent á að flestir starfsmenn sem sagt er upp á LSH fari beint á atvinnuleysisskrá. Er þetta skynsamleg stefna? Á síðasta fjárhagsári ríkisins fóru 25 milljarðar í atvinnuleysisbætur. Er betra að halda áfram að svelta ríkisstofnanir um eðlileg framlög til að halda uppi starfseminni og senda fólkið heim á framfærslu atvinnuleysistryggingasjóðs? Hvers konar vitleysa er þetta?

Það verður að krefjast þess af ráðamönnum þjóðarinnar að orðum þeirra fylgi ábyrgð. Núverandi ríkisstjórn var ekki kjörin til að halda áfram þeirri iðju fyrri ríkisstjórnar að slá ryki í augu fólks. Orðum verða að fylgja athafnir, annars er ekkert mark á þeim takandi. Það fjölgar stöðugt í hópi langtímaatvinnulausra. Eflingarfélögum án atvinnu hefur nú fjölgað um rúmlega 200 manns á undanförnum tveimur mánuðum. Annar hver félagsmaður án atvinnu hefur verið atvinnulaus lengur en sex mánuði.

Það eru tvær leiðir sem stjórnvöld, sveitarfélög og atvinnurekendur hafa nú um að velja. Annars vegar sú leið að mæta hallarekstri ríkis og sveitarfélaga með enn frekari skattahækkunum eða niðurskurði. Niðurskurðurinn einn og sér leiðir til enn minni skatttekna og enn meiri erfiðleika ríkis og sveitarfélaga. Hin leiðin er að efla atvinnulífið, standa vörð um störfin og efla alla nýsköpun í landinu. Sú leið hraðar þeim viðsnúningi í samfélaginu sem við öll viljum. Það kallar á framsýni að snúa þröngri stöðu samdráttar yfir í uppbyggingu að nýju þar sem horft er til fjölgunar starfa og endurreisnar fyrirtækja.

Komandi kjarasamningar eru mikil prófraun á okkur öll. Þar verðum við að þora að fara óhefðbundnar leiðir. Við verðum að skilgreina stóru verkefnin. Við verðum að verjast frekari kjaraskerðingum og hefja uppbygginguna á ný. Við þurfum endurreisn atvinnulífsins þar sem forgangskrafan hlýtur að vera um nýsköpun. Til þess að þetta sé gerlegt verða aðilar vinnumarkaðarins að koma að sameiginlegu borði þar sem staðan verði rædd til þrautar. Ekki síst þarf að ræða hvernig stjórnvöld geti endurheimt það traust sem hlýtur að verða ein af forsendum þess að þetta sé gerlegt.

Sigurður Bessason                                                                                                                                                                                                                           Formaður Eflingar – stéttarfélags