Aukinn kaupmátt og eflingu vinnulífsins

17. 01, 2011

aukinn_kaupmatt   Samninganefnd Flóans samþykkir áherslur um aukinn kaupmátt og eflingu vinnulífsins

– segir formaður samninganefndar Sigurður Bessason

Það ríkti samstaða á þessum fjölmenna fundi okkar um megináherslur í komandi kjarasamningum, sagði Sigurður Bessason, en fyrsti fundur samninganefndar Flóafélaganna var haldinn 8. desember sl. Við teljum mikilvægast að móta hér nýja og framsækna lífskjara- og atvinnustefnu þar sem við setjum stefnuna á aukinn kaupmátt um leið og við viljum tryggja störf fólksins í landinu. Við höfum vísvitandi ekki lagt fram tillögur um launatölur þar sem ennþá vantar forsendur bæði frá stjórnvöldum og sveitarstjórnum sem unnt er að byggja á í okkar vinnu. Það var mjög góð samstaða um þessar áherslur sem við höfum þegar kynnt atvinnurekendum, segir Sigurður Bessason, sem var einróma kjörinn formaður samninganefndar á fundinum.

Það sem er mikilvægast núna á þessari stundu er að mynda samstöðu innan ASÍ og með öðrum samtökum um sameiginleg markmið þar sem við sláum vörð um hagsmuni þeirra sem lakast standa. Það þarf að bæta kaupmátt allra launa en jafnframt þarf að leggja áherslu á að ná meiru fram fyrir þá lakar settu og jafnframt að bæta öryggisnetið fyrir þennan hóp, segir Sigurður. Þetta getum við ekki nema með öðrum félögum og samtökum á vinnumarkaði að því sem snýr að atvinnurekendum, ríki og sveitarfélögum, segir hann. Þess vegna er heildarsamstaða um meginmál svo mikilvæg.

Við verðum einnig að hverfa frá stefnu stjórnvalda um endalausar skattaálögur  og niðurskurð. Sú stefna leiðir bara yfir okkur enn frekari samdrátt og getur bara dregið okkur niður á við, segir hann.

Sigurður lagði einnig áherslu á að nú ríkti algert vantraust aðila vinnumarkaðarins í garð stjórnvalda sem ekki stóðu við fyrirheit í svokölluðum stöðugleikasáttmála. Þess vegna væru flestir þeirrar skoðunar að aðeins væri svigrúm til skammtímasamninga en tíma slíks samnings væri hægt að nýta til að byggja upp atvinnu og leggja grunn að sókn í kaupmætti launa.

Formenn Flóafélaganna, Eflingar, Hlífar og VSFK gerðu grein fyrir þeim málum sem fólk setti á oddinn í þessum kjarasamningum og Harpa Ólafsdóttir, hagfræðingur Eflingar fór yfir vinnuna við undirbúning samninganna og gerði grein fyrir megináherslum Flóans. Sigurrós Kristinsdóttir, varaformaður Eflingar gerði grein fyrir stöðunni í samningunum með SGS í undirbúningi viðræðna við ríkið.

Mikill einhugur ríkti á fundinum. Samþykkt var að í viðræðunefnd félaganna yrðu formenn félaganna og varaformenn. Þá var einróma samþykkt umboð til að setja niður kjaramálastefnu á grundvelli kynningar á fundinum. Einnig hefðbundin heimild til að fara með þau mál sem heyra undir heildarsamtökin inn á vettvang undir forystu ASÍ.