Leiðari jan 2011

12. 01, 2011

Hér birtist leiðarinn úr nýjasta fréttablaði Eflingar

Við gerð kjarasamninga 2008 og stöðugleikasáttmálans 2009 var rætt um þann aðsteðjandi vanda sem blasti við  í íslensku samfélagi. Þá eins og nú var reynt að rýna inn í framtíðina með misgóðum árangri. Margt af því sem rætt var um  gekk eftir, á meðan annað fór á verri veg eða einfaldlega náði ekki fram að ganga. Þá eins og nú  blasti við öllum almenningi fjöldi aðkallandi viðfangsefna sem brýnt var að leysa sérstaklega í kjölfarið á hruni bankanna.

Því miður náðist ekki að leysa fjölda mikilvægra mála. Sumpartinn vegna þess að deilt var um leiðir og hvernig ætti að leysa viðfangsefnin. En einnig skorti skilning á alvarlegum afleiðingum allt of fálmkenndra aðgerða. Vaxandi skuldavandi heimila og uppboð á eignum fólks, aukin fátækt og vaxandi atvinnuleysi eru birtingarmyndir afleiðinganna.  Aldrei áður höfum við séð jafn háar atvinnuleysistölur í jafn langan tíma. Það sem verra er að kominn er einhver uppgjafartónn í atvinnulífið. Enn eru áformaðar uppsagnir starfsmanna. Engin framtíðarsýn er um hvernig hefja megi uppbyggingu með fjölgun  nýrra starfa.  Línan hefur verið lögð af  ríki og sveitarfélögum sem í upphafi lögðu af stað með hagræðingaraðgerðir en sem hafa hægt og sígandi færst yfir í að leysa sín mál með hækkun skatta og þjónustugjalda bæði á starfsmenn og fyrirtæki í stað eflingar atvinnulífsins þar sem ný störf skila hækkandi skatttekjum.

Eitt af meginverkefnum í komandi kjarsamningum hlýtur að vera að snúa þessari óheillaþróun við. Við verðum að skapa skilyrði  á vinnumarkaði til að hægt verði að auka kaupmátt að nýju. Að tekið verði á stöðu lægstu launa. Með sama hætti verður að mæta því kaupmáttafalli sem millitekjuhópar hafa orðið fyrir. Þetta verður best gert með því að styrkja íslensku krónuna tímabundið en færa okkar síðan yfir í öruggari gjaldmiðil. Styrking krónunnar verður síðan að skila sér í lægra vöruverði til almennings samhliða hertu verðlagseftirliti. Grunnurinn liggur í því að hér  verði hægt að skapa ný störf með eflingu atvinnulífsins og vinna gegn atvinnuleysinu sem er versti óvinur hins vinnandi manns.

Allir kjarsamningar á vinnumarkaði, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði eru lausir um þessar mundir. Með því gefst aðilum vinnumarkaðarins einstakt tækifæri að taka samstíga ákvarðanir um allar þær helstu lausnir sem skila okkur áfram. Vandi heimila í landinu er ekki mismunandi eftir búsetu eða kjarasamningum. Hann er allstaðar sá sami. Heildarlausnir sem aðilar vinnumarkaðarins koma sér saman um munu snerta alla, ekki bara suma. Það er eðlileg krafa á forystumenn launfólks og atvinnulífs að þeir komi að sama borði við úrlausn þessara stóru mála.

Með sama hætti er gerð sú krafa til ríkisstjórnarinnar að hún stígi fram fyrir skjöldu í þessari stöðu ásamt sveitarfélögum þar sem farið verði yfir fyrirhugaðar hækkanir á álögum og rætt hvernig hægt sé að hlífa þeim sem lakast standa. Það er á borði ríkisstjórnarinnar að skapa grundvöll fyrir fyrstu viðræður með því að loka þeim lausu endum sem skildir voru eftir við gerð síðustu kjarasamninga þar sem ennþá eru ófrágengin lög um Endurhæfingasjóð og hækkun persónuafsláttar sem samkomulag var um í stöðugleikasáttmálanum.