Mikil samstaða meðal sjómanna

25. 01, 2011

mikil_samstada_medal_sjomanna       Mikil samstaða meðal sjómanna

– segir Þórður Ólafsson

Ég hef setið mörg sjómannasambandsþing um dagana en hef ekki séð svona algera samstöðu og eindrægni meðal sjómanna sem endurspeglaðist í öllu starfi á þinginu, segir Þórður Ólafsson sem var fulltrúi Eflingar-stéttarfélags á þingi Sjómannasambands Íslands í desember sl. Það voru bókstaflega engin stór ágreiningsmál  en meginkrafa sjómanna er að kvótaúthlutanir fari á þá báta sem hafa veiðirétt með starfandi sjómönnum, segir Þórður. Síðan er það ótrúleg framkoma stjórnvalda í garð sjómanna að samráð við samtök sjómanna er nánast ekkert í hverju málinu á fætur öðru, segir hann.
 
Þingið var með þjóðfundarfyrirkomulagi og reyndist mjög vel og mikil ánægja með það.

Það vannst svona vel að stórum hluta vegna þessa fyrirkomulags. Vinnan var afskaplega góð og málefnaleg. Góður samhljómur og engin stór ágreiningsmál.

Þingið hafnaði þeirri aðferðafræði stjórn-valda að afnema sjómannaafsláttinn einhliða og ætla þannig sjómönnum að sækja á útgerðirnar um bætur. Sjómenn líta svo á að það sé á ábyrgð stjórnvalda að sjá til þess að kjör sjómanna skerðist ekki þó sú ákvörðun sé tekin að kostnaður af sjómannaafslættinum sé færður frá ríki til útgerðanna.

Þingið gagnrýndi einnig að ekkert samráð virðist eiga að hafa við samtök sjómanna um fiskveiðistjórnunarkerfi framtíðarinnar. Varla getur það flokkast undir víðtæka sátt ef þeir sem hafa atvinnu af fiskveiðum eru ekki spurðir um álit á hvernig málum atvinnugreinarinnar verður háttað í framtíðinni, segir Þórður. Sjávarútvegsráðherra hafi ítrekað sýnt sjómönnum lítilsvirðingu með því að leita ekki eftir áliti samtaka þeirra þegar ráðuneytið fjallar um málefni sjávarútvegsins.

Þingið krafðist þess að frjálst framsal aflamarks verði afnumið og samhliða verði sett lög um fjárhagslegan aðskilnað veiða og vinnslu. Eins og staðan er í dag getur kaupandi og seljandi afla verið einn og sami aðilinn sem í krafti einokunaraðstöðu sinnar ákveður verðið. Slíkur viðskiptamáti hlýtur að brjóta í bága við lög um heilbrigða samkeppni og góða viðskiptahætti.  Eðlilegt hlýtur að teljast að allir fiskkaupendur hafi sömu möguleika á að kaupa þann fisk sem leyfilegt er að veiða úr takmarkaðri auðlind. Fyrsta skrefið til að koma á eðlilegum viðskiptaháttum með fisk er að aðskilja veiðar og vinnslu fjárhagslega sem leiðir til þess að allur afli verði seldur á fiskmarkaði eða tengdur afurðarverði, sagði hann að lokum.