Að endurheimta kaupmátt

14. 03, 2011

ad_endurheimta_kaupmatt                                                                                     Stóra málið núna er

Að endurheimta kaupmátt

– segir Sigurður Bessason, formaður samninganefndar Flóafélaganna.

Það var mitt mat þegar við hófum undirbúning kjarasamninganna í haust að kjarasamningarnir sem væru framundan yrðu með erfiðari samningum. Tíminn sem liðið hefur síðan hefur sannfært okkur enn frekar um hversu snúið þetta er, segir Sigurður Bessason, formaður Eflingar og samninganefndar Flóafélaganna í samtali við Eflingarblaðið. Verkefnið núna er fyrst og fremst að endurheimta kaupmátt launa sem tapast hefur frá hruninu, tryggja sem flestum atvinnu og bæta réttarstöðu þeirra sem hafa orðið fyrir atvinnumissi, launalækkunum og ýmsum skerðingum eftir hrun efnahagslífsins.

Glæný könnun á vegum ASÍ sýnir að fólkið í landinu vill samræmda launastefnu sem styrkir okkur í þeirri stefnumörkun sem við höfum haft síðan í haust. Þessi könnun gengur í nákvæmlega sömu átt og það viðhorf sem fram kom í könnun Flóafélaganna þar sem yfirgnæfandi meirihluti studdi launastefnu  þar sem megináherslan var á kaupmáttaraukningu þar sem horft yrði til allra hópa innan félagsins samhliða því að lægstu laun yrðu skoðuð sérstaklega.

Við erum nú að funda með fjölmörgum félagsmönnum til að undirbúa kjarasamningagerðina. Samninganefnd okk-ar í Flóanum hefur komið saman en auk þess erum við að ræða við einstaka samningahópa og trúnaðarmenn í sérkjara- og fyrirtækjasamningum. Þessa vinnu erum við að vinna samhliða því að reynt er að þoka málum áfram í launaliðum kjarasamninganna milli ASÍ og SA. Það er mjög mikilvægt að ræða við einstaka hópa félagsmanna því það geta verið málefni á einstaka kjarasamningssviðum eða í fyrirtækjunum sem starfsmenn vilja fá umræðu um áður en gengið er frá launalið samninganna. Þá erum við samhliða að ræða við Reykjavíkurborg og ríkið, og ýmsa aðila sem tengjast óbeint kjarasamningum á almenna markaðnum. Það gerir ekki stöðuna auðveldari að allir kjarasamningar félagsins eru nú lausir, bæði á almenna og opinbera markaðnum.

Afstaða stjórnvalda getur ráðið úrslitum
Það er alveg ljóst að afstaða stjórnvalda í þessum samningaviðræðum sem nú standa geta valdið úrslitum. SA setti samningana í uppnám með kröfu um að þeir fengju niðurstöðu í fiskveiðistjórn-unarmálum á borðið. Sú deila hefur nú sem betur fer verið lögð til hliðar í bili. En það munu standa spjótin á ríkisstjórnina í þessum kjarasamningum og þá reynir á hvort gengur saman. Ég geri ráð fyrir að skattamálin verði þar áberandi þegar farið verður að ræða við ríkið, bæði tenging tekna við barna- og vaxtabætur og síðan réttindi í atvinnuleysistryggingum og réttleysi fólks við gjaldþrot fyrirtækja eins og fram hefur komið. Þá hefur ríkisstjórnin ekki ennþá efnt samkomulag sem gert var sl. sumar um starfsendurhæfingarsjóð og fleira mætti nefna, sagði Sigurður Bessason.

Hvaða tímaramma erum við að setja okkur til að ljúka samningum?

Það er erfitt að fullyrða um það á þessu stigi. Við höfum vonast til þess að geta lokað öllum sérmálum í febrúarmánuði og um mánaðamótin gæti hillt undir niðurstöðu í launalið og megináherslum ef gengur saman með aðilum. Það sem hefur verið rætt er hugmynd um samkomulag aðila fram á vorið og svo tæki hugsanlega við lengri samningur ef tekst að ná saman sjónarmiðum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambandsfélaganna. En það er allt of snemmt að spá neinu um það á þessu stigi.