Karlar láti gott af sér leiða

18. 03, 2011

karlar_lati_gott_af_ser_leida                                                            Samstarfsverkefni Eflingar og Fjölsmiðjunnar

Karlar láti gott af sér leiða

– Rætt við Þorbjörn Jensson, forstöðumann Fjölsmiðjunnar

Efling og Fjölsmiðjan ýttu úr vör nýju samstarfsverkefni í byrjun janúar með yfirskriftinni Láttu gott af þér leiða.  Markmiðið með verkefninu er að virkja langtímaatvinnulausa karlmenn, efla sjálfstraust og auka virkni þeirra. Hópurinn sem um ræðir eru karlmenn sem hafa langan starfsaldur í störfum, tengdum iðnaði og mannvirkjagerð.

Á fjölmörgum fundum hjá Eflingu með atvinnuleitendum í þessum aldurshópi hefur komið fram að menn eru oft mjög einangraðir, og vantar tengslanet, áhugamál og tilgang, segir Þorbjörn Jensson sem vann að málinu fyrir hönd Fjölsmiðjunnar. Verkefnið snúist um að miðla af reynslu og verkkunnáttu og efla sjálfstraust atvinnuleitenda með sjálfboðaliðastarfi sem gæti leitt til þess að  þeir sjái nýjar leiðir til að bæta stöðu sína og verða virkari í atvinnuleitinni.

Fyrirkomulag verkefnisins er þannig að þátttakendur mæta kl 09.00 að morgni í Fjölsmiðjuna í Kópavogi. Þar tekur við lukkustundar fundur með verkefnisstjóra. Efni fundarins er að mestu leyti í höndum þátttakenda og hugsunin er að þeir komi sér saman um áhugaverð verkefni sem þeir ásamt verkefnastjóra ákveða. Ef þekking er ekki til staðar innan hópsins til að klára verkefnið geta þátttakendur aflað upplýsinga sjálfir eða fengið til sín leiðbeinendur með innlegg og  umræður. Mikilvægur hluti fundanna er einnig að skipuleggja sjálfboðaliðastarf þeirra fyrir fjölsmiðjuna. Þegar fundinum lýkur tekur við tveggja klukkustunda sjálfboðaliðsstarf með skjólstæðingum Fjölsmiðjunnar og önnur verkefni sem hópurinn hefur samþykkt að taka að sér. Klukka 12.00 er hópnum boðið uppá heitan hádegisverð í mötuneyti Fjölsmiðjunnar og þar með lýkur starfsdeginum.

Velferðarráðuneytið styrkir verkefnið og það segir mér að sjálfboðaliðsstarfið er talið mikilvægt  fyrir þátttakendur og gefur þeim m.a. tækifæti til þess að átta sig á að reynsla þeirra og þekking kemur að góðum notum í samfélaginu, sagði Þorbjörn að lokum.