Ályktun aðalfundar Eflingar-stéttarfélags
Aðalfundur Eflingar-stéttarfélags samþykkti einróma í kvöld eftirfarandi ályktun
Stéttarfélögin innan ASÍ hafa nú um margra mánaða skeið reynt að ná kjarasamningum við Samtök atvinnulífsins. Upp úr samningaviðræðum slitnaði á föstudag í síðustu viku þegar SA gerði þá ófrávíkjanlegu kröfu, að þeirra sögn, að ekki yrði gengið frá samningum án þess að fá fram stefnumörkun stjórnvalda í fiskveiðistjórnunarmálum. Efling-stéttarfélag hefur ásamt ASÍ félögum gagnrýnt atvinnurekendur harðlega fyrir að taka launamál mikils meirihluta landsmanna í gíslingu með þessum ósvífna hætti.
Á mánudag sl. gengu síðan sömu samtök atvinnurekenda frá staðbundnum vinnustaðasamningi við eitt stærsta fyrirtæki landsins þar sem stefnan í sjávarútvegsmálum var engin fyrirstaða lengur.
Efling-stéttarfélag gerir þá kröfu til Samtaka atvinnulífsins að þar sem þau hafa með samningi við Elkem lagt til hliðar stefnu sína í sjávarútvegsmálum, þá gangi þau til samninga af fullri alvöru við félögin innan ASÍ strax eftir páskahátíðina.
Aðalfundur Eflingar stéttarfélags krefst þess að samningar á almennum markaði verði afturvirkir á sama hátt og Samtök atvinnulífsins hafa samþykkt í nýjum kjarasamningi SA og Elkem.