Mikilvægt að eiga samhenta vinnufélaga

29. 04, 2011

mikilvaegt_ad_eiga_samhenta_vinnufelaga

Mikilvægt að eiga samhenta vinnufélaga og stéttarfélagið að baki

– segir baráttumaðurinn Gylfi Páll Hersir

Gylfi Páll Hersir er baráttumaður fyrir kjörum og réttindum verkafólks. Hann er kominn af verkafólki en faðir hans var sjómaður á fraktskipum og móðir hans vann við hreingerningar í heimahúsum. Föðuramma hans og afi voru miklir verkalýðsforkólfar. Afinn var framarlega í stéttarbaráttu bakara, var formaður Bakarasveinafélagsins í einhverja áratugi og amman formaður Verkakvennafélagsins Snótar í Vestmannaeyjum. Hún tók líka virkan þátt í að koma á fót barnaheimili í Vestmannaeyjum. Þau voru mjög framarlega í verkalýðsbaráttunni og miklir kratar, segir Gylfi Páll. Hann var flestum stundum í sveit hjá afa sínum og ömmu austur í Ölfusi til 14 ára aldurs en gekk í skóla í Reykjavík.

Gylfi Páll útskrifaðist sem stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík og lærði eðlisfræði og stærðfræði í Háskóla Íslands. Á þessum árum var sjaldgæft að fólk færi til náms hvað þá langskólanáms en ég er sá fyrsti í stórum hópi fjölskyldunnar sem tók stúdentspróf, segir hann. Gylfi segir mikla umbrotatíma hafa verið á námsárum hans. Hreyfingin gegn Víetnamstríðinu stóð þá sem hæst og margvísleg umræða var í gangi í samfélaginu og í háskólanum t.d. í sambandi við jafnrétti kvenna, baráttu þeirra fyrir að ráða yfir eigin líkama og stöðu þeirra í samfélaginu. Ég var mjög virkur í þessum hreyfingum öllum, segir Gylfi. Síðan fer ég út 1975 í framhaldsnám til Danmerkur að læra jarðeðlisfræði. Þar tók ég líka virkan þátt í pólitískum umræðum og baráttu ýmis konar, segir hann.

Þegar Gylfi kom heim til Íslands 1982 eftir námið fór hann að vinna hjá Orkustofnun við jarðhitarannsóknir og við vinnuverndarrannsóknir að hluta. Sú rannsóknarvinna átti eftir að hafa áhrif á afnám einstaklingsbónuskerfisins sem þá tíðkaðist í hinum ýmsu greinum. Þetta kerfi var mjög umdeilt og margir töldu það spilla heilsu verkafólks og móralnum í vinnunni. Rannsóknin sýndi að bónuskerfið hafði slæm áhrif á líf og heilsu verkafólks og ekki síst verkakvenna. Þarna voru konur að vinna samkvæmt þessu kerfi sem gekk nærri heilsu þeirra, auk þess að þær sáu um allt á heimilinu. Þessi rannsókn var mjög merkileg, einnig í ljósi umræðna sem voru um kvenfrelsismál og tengist jafnréttisbaráttunni því þessi kerfi höfðu áhrif á stöðu kvenna, segir Gylfi.

Kynntist þá Guðmundi J og Dagsbrún
Það var í kringum vinnuverndarrannsóknirnar sem Gylfi kynntist fyrst Dagsbrúnarmönnum og Guðmundi J., þá formanni Dagsbrúnar og einnig Verkamannasambandsins. Guðmundur var skemmtilegur maður og við áttum ágætis samskipti, hann var dálítið sérstakur á sinn hátt, segir Gylfi.

Dagsbrún stóð vel að baki okkar
En hvað varð til þess að Gylfi varð svo einn af Dagsbrúnarmönnum? Mig langaði til að verða virkur í pólitískri baráttu. Ég hafði áhuga á því sem var að gerast í heiminum og á pólitík og vildi verða virkur þátttakandi í því en ekki lesa bara um það í blöðunum. Mér fannst vera tilgangur í því að starfa með verkafólki, sem skapar í rauninni auðinn í þjóðfélaginu. Ég var auðvitað ekki einn á báti því ég átti félaga sem voru sama sinnis og við stefndum að því að efla verkalýðshreyfinguna í samvinnu við félaga hennar. Hann hætti í skrifstofuvinnunni, gerðist verkamaður í Slippnum við Reykjavíkurhöfn og vann þar næstu 12 árin.

Þetta þróaðist út í að verða mjög pólitískur vinnustaður segir Gylfi, en þá var mikill samdráttur og barátta þar af leiðandi að halda í kjörin. Vinnufélagarnir hafi verið skemmtilegir og vel að sér um margt og þarna voru margar skemmtilegar umræður. Hann segir að Dagsbrún hafi staðið vel á bakvið sína menn og samstaðan á milli verkamanna á vinnustaðnum hafi verið mikil. Það hafi komið í ljós þegar honum var sagt upp vegna afskipta af verkalýðsmálum, en þá komu verkamennirnir á staðnum því til leiðar með mikilli samstöðu að uppsögnin var dregin til baka. Þetta var ákveðið fordæmi fyrir aðra að sjá að það hefði eitthvað upp á sig að verjast. Eins sýnir þetta hve mikilvægt er að hafa vinnufélagana samhenta og stéttarfélagið sitt á bakvið sig. Því einn á maður lítinn séns, segir Gylfi.

Í álverinu í Straumsvík
Þegar hann hætti í Slippnum fór hann að vinna hjá verktakafyrirtæki í álverinu í Straumsvík. Þar var hert að mönnum að taka ekki veikindadaga og tilkynna ekki vinnuslys. Mönnum var mútað með ókeypis ferð til höfuðborgar Evrópu ef tækist að fækka veikindadögum, og ef engin vinnuslys yrðu á árinu fengi makinn frítt með, segir Gylfi. Það hafi gengið eftir með veikindadagana en ekki með vinnuslysin þar sem hann sjálfur varð fyrir því óláni að lenda í slysi þegar þekja yfir einu álkeranna féll óvænt niður og lenti á brúninni á hjálminum sem hann var með. Skráð vinnuslys í álverinu heyra til undantekninga. Það var því ekki nema von að verkstjórinn þyrði ekki að hringja á sjúkrabíl og lét því leigubíl eftir flutninginn á slysavarðstofuna þar sem annars hefði Vinnueftirlitið verið kallað til og vinnuslysið orðið opinbert. Gylfi fékk heilahristing en náði sér sem betur fer. Margir verkamenn og fagmenn voru í harki með vinnu og létu ýmislegt yfir sig ganga til að hafa vinnu. Í upphafi verkalýðsfélaganna lærðu menn að standa saman til þess að lífið væri ekki kreist úr þeim í vinnunni. Við þurfum að rifja þann lærdóm upp, segir hann.

Ekkert hefst án baráttu
Verkalýðsbaráttan er nátengd kjörum verkafólks almennt og snertir líka heilsugæslu og menntun. Því eru stundum haldið fram að þetta sé hluti af þróun samfélagsins, en ekkert af réttindum fólks hefur fengist ókeypis, þau hafa öll komið til í kjölfar mikillar baráttu, segir Gylfi. Hann tók sjálfur þátt í baráttumálum aldraðra er hann stofnaði ásamt öðrum aðstandendafélag á Skjóli, þar sem móðir hans bjó í rúman áratug. Það er réttur okkar að halda reisn til æviloka. Það æviskeið er ekki ómerkilegra en önnur og við eigum að bera jafn mikla virðingu fyrir því og öðrum skeiðum ævinnar.

mikilvaegt_ad_eiga_samhenta_vinnufelaga_b

Við jarðhitarannsóknir
Nú vinnur Gylfi við jarðhitarannsóknir, en hann ferðast töluvert í vinnu sinni. Hann tekur þátt í verkefnum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands sem miðar að því að skapa og auka þekkingu heimamanna á jarðhitamálum. Hann hefur ferðast til Níkaragua, El Salvador og Kenía. Í Kenía sé t.d. mikið af orkulindum sem á að nýta til rafmagnsframleiðslu vegna þess að öll orkan þeirra kemur frá olíu sem er mjög dýrt. Eitt helsta málið í þessum löndum er að tryggja aðgang almennings að rafmagni. Vel innan við þriðjungur íbúa Kenía hafa aðgang að rafmagni. Á kvöldin er niðamyrkur hjá stórum meirihluta íbúanna. Það eru algjör lágmarks lífsgæði að hafa ljós og rafmagn til heimilishalds, að ekki sé talað um framleiðslu allra hluta, segir hann. Einnig sé gífurlegur jarðhiti í Níkaragua og Mið-Ameríkulöndunum og t.d. komi fjórðungur allrar raforku frá jarðhita í El Salvador sem er svipað hlutfall og á Íslandi. Jarðhitinn hefur verið lítið nýttur í Níkaragua vegna stríðs sem þar geisaði meira og minna alla síðustu öld. En Gylfi þekkir aðeins til þar því hann fór þangað haustið 1987 til að taka þátt í uppbyggingu eftir tíð einræðisherrans Somosa. Það var afar ánægjulegur tími og lærdómsríkt að fá að taka þátt í þeirri uppbyggingu sem var í gangi, segir hann. En verður Gylfi aldrei hræddur um sig á þessum ferðalögum þar sem ástandið getur verið ótryggt? Ég fer nú bara mjög varlega, segir hann.

Gylfi hefur ávallt stutt kúbönsku byltinguna og vegna tengsla sinna við Kúbu tók hann á móti Irmu Conzalez í mars sl. Hún er dóttir eins af kúbönsku fimmmenningunum eða Cuban Five og hefur ferðast um til að tala máli þeirra, en þeir hafa mátt sæta mannréttindabrotum af hálfu Bandaríkjanna sem dæmdu þá til langra fangelsisvista. Þeir voru að fylgjast með hægri sinnuðum öfgamönnum sem standa á bakvið hryðjuverk á hendur Kúbu.

Kjarabaráttan í dag

Aðspurður um breytingar sem stéttarfélagið hefur gengið í gegnum segir Gylfi  að félagið í dag sé ekki eins opið fyrir umræðum og áður og orðið stofnanavæddara. Þegar Dagsbrún sameinaðist Framsókn fannst mér mjög jákvætt að leggja niður þessi kynbundnu verkalýðsfélög. Síðar dalaði virknin og þessir stóri fundir m.a. í Austurbæjarbíó sem tíðkuðust áður heyrðu sögunni til. Á þeim voru kröfur ræddar, verkfallsheimilda aflað og greidd atkvæði um hana og nýja samninga. Félagið var smærra og meira lifandi; það var oft tekist á og uppbyggileg umræða átti sér stað um hagsmuni verkfólks í breiðasta skilningi þess orðs. Ég þekki auðvitað ekki nákvæmlega hvernig þetta er núna en auðvitað heyrist allt of lítið frá verkalýðsfélögunum, þau eru til hliðar við  umræðuna.

En hvað finnst honum um kjarabaráttuna í dag? Eitt af því sem gerðist hjá verkalýðsfélögunum í kjölfar hrunsins var þegar stjórn VR var velt 2009. Það er kannski skýrasta birtingarmynd óþols félagsmanna og krafna um breytingar í stéttarfélögunum. Það er töluvert afrek að velta sitjandi stjórn og erfitt verk sem bíður nýrrar stjórnar, sem gengur ekki alltaf vel eins og dæmið sýnir. Þegar talið berst að stöðu kvenna á vinnumarkaði segir Gylfi að hún hafi að mörgu leyti batnað. Öll umræða um réttindi kvenna sé opnari og konur séu raunverulegir þátttakendur á nær öllum stigum samfélagsins. Áður fyrr hafi konur verið meira til hliðar á vinnumarkaði og kynin jafn vel í aðskildum stéttarfélögum. Nú er vinnudagurinn svipaður að lengd hjá báðum kynjum, konur stundi fjölbreyttari störf og karlmenn taki meiri ábyrgð á heimilinu en áður. Aftur á móti er heimurinn miklu opnari nú og alls kyns viðbjóður sem þar viðgengst virðist nær, eins og kynbundið ofbeldi, mansal og þrælahald. Það þarf að vinna bug á því, snúa sögunni við og auka framgang kvenna í samfélaginu segir Gylfi að lokum.